Elskulegu dömur,
Heyrði í dætrum mínum í dag. Þær eru í Grænuhlíð og þar skín sólin og börnin hlaupa allsber á túninu og leita að moldvörpum. Ég sakna þeirra alveg ósköp en reyni að harka af mér því ég veit hvað það er gaman...
Hér var líka yndislegur dagur. Sólin skein og allir voru glaðir. Við fórum á sýninguna Vor í Árborg og ég keypti mér 11 feta veiðistöng hjá Birgi Nielsen...handa mínum í ammilispakkann, þið vitið! Svo hann sé duglegur að afla matar fyrir heimilið. Hann er reyndar svo mikil veiðikló að allir í fjölskyldunni eru farnir að fela sig á bakvið gardínur síðla sumars þegar kisturnar eru orðnar fullar af laxi, - paté, hakki farsi, mauki....Stella í orlofi uppskriftir um allt!
Mjög fín og skemmtileg sýning. Ég skráði mig á magadansnámskeið hjá Lifandi húsi sem byrjar á mánudaginn. Virkilega dömulegt að geta sveiflað mjöðmunum af kynþokka og glæsileik! Eða hvað slæðurnar eru flottar...drífum okkur elskurnar, það eru enn laus pláss!!!Svo er þetta svo gott og hollt og skemmtilegt fyrir andann.
Alltaf að prófa eitthvað nýtt á hverjum degi!
Hafið það gott elskulegar.
bumbuknús
a
Lífstíll | 10.6.2007 | 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver einasta damista er Gyðja í hjarta sínu. Formæður okkar Frigg og Freyja voru áhrifamiklar dömur á sínum tíma en þær voru svo uppteknar við sín dömulegu störf , þ.e. að stjórna veröldinni... að þær höfðu ekki tíma til að skrifa söguna frekar en aðrar dömur svo að karlpeningurinn sá um það og gerði þar af leiðandi hlut kvenna minni en hann var í raun og veru.
Það er ekki allt satt sem stendur í bókunum þó gerðar séu af kálfskinni og ritaðar kálfsblóði!Nú er von að sannleikurinn komi í ljós! Hinn skörulegi þjóðfræðingur Ingunn Ásdísardóttir ætlar að segja okkur allt um hlut formæðra okkar, Freyju og Friggjar, í fyrirlestri á Þingvöllum þann 14.júní nk. Ferðin hefst við fræðslumiðstöðina við Hakið kl.20.00.
Ég held að við bara verðum að mæta elskulegu dömur! Ha! Annað er bara ekki sæmandi okkur sem sönnum dömum og Gyðjum!Sem við erum og höfum alltaf verið!
Rifjum nú aðeins upp það sem ritað hefur verið um þessar dásamlegu Gyðjur:
Freyja merkir frú. Hún er dásamleg gyðja ástar og frjósemi. Hún bjó ásamt bróður sínum Frey sem er frjósemisguð og föður sínum Nirði sjávarguðinum sjálfum, í Ásgarði en þangað voru þau send sem gíslar og vináttuvottur eftir stríð tveggja ætta goða. Freyja var valdamikil gyðja og dýrkuð af konum jafnt og af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar og veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Þar sem hún er ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn bæði goð og konunga sem hún studdi svo í valdatíð þeirra. Enda var nú alltaf sagt að að baki hvers karlmanns væri kona sem stjórnaði öllu í raun og veru þó þær hefðu ekki krafta í kögglum þá hlaut að vera einhver heili á bak við þetta allt saman!
Bóndi hennar var Óttar eða Óður var nú ósköp veiklyndur og grét af söknuði þegar hann þurfti að fara að heiman en Freyja kunni því vel því tárin voru úr skíragulli og komu sér vel í blingsafnið hennar elskunnar! Þau áttu dæturnar Hnoss og Gersemi. Bær Freyju hét Fólkvangur og þangað voru allir velkomnir.
Freyja átti auðvitað eins og allar sannar dömur lekkeran farkost sem hæfði henni. Það var vagn sem tveir kettir drógu enda hafa konur og kettir alltaf átt margt sameiginlegt eins og tíguleika, afbragðsgáfur og útsjónarsemi...níu líf, hvað! Hún átti einnig valsham sem var þeim eiginleikum búinn að er hún klæddist honum breyttist hún í fugl og gat flogið hvert sem hún vildi. Það er ekkert sem stoppar sanna dömu!
Eins og aðrar kynsystur vorar var Freyja mikið fyrir blingið og átti þar af leiðandi mikið safn gulla og gersema en frægast þeirra er Brísingamenið hennar sem hún sá eitt sinn hjá dvergum af Brísingaætt en þeir voru ótrúlegir hagleiksmenn og höfðu smíðað dýrgripinn. Hún falaðist eftir því og þeir sögðu að hún mætti fá það ef hún eyddi einni nótt með hverjum þeirra og hún var auðvitað greiðvikin dama og samþykkti það enda bóndinn aldrei heima...a lady has to do what a lady has to do!!!!
Þegar Óðinn frétti af þessu varð hann öfundsjúkur og skipaði hann Loka að ræna meninu af Freyju. Loki breytti sér þá fló og á meðan Freyja svaf beit hann hana í kinnina svo hún bylti sér og hann rændi af henni skartinu. Þegar Freyja uppgvötaði að menið var horfið vissi hún strax að Óðinn hefði tekið það og heimtaði að hann skilaði því. Óðinn gerði það en fyrst þurfti Freyja að koma af stað vígum milli tveggja konunga en víg þessi þróuðust yfir í eina af helstu hetjusögnum víkingatímans.
Já, það verður gaman að heyra útgáfu Ingunnar sem mun örugglega vera Freyju í hag.
Þá er það hún Frigg Fjörgynsdóttir vinkona okkar. Ekki er hún síðri elskulega daman sú! Hún er höfuðgyðja í norrænni goðafræði og var eiginkona Óðins. Nafn hennar merkir ást eða hin elskaða. Frigg veit allt, er forspá og sér fyrir öll örlög , þá þurfti nú ekki Tarotspilin. Hún er verndari hjúskapar, fjölskyldu og heimilis. Einkennisgripir hennar eru lyklar, mistilteinn, valshamur og rokkurinn sem hún notar til að spinna skýin. Frigg býr að Fensölum í Ásgarði þar sem hún, eins og aðrar dömur hefur nokkrar stúlkur sér til aðstoðar við nokkur þau hin erfiðari verk sem vinna þarf heima og heiman.
Baldur sonur Friggjar var bjartastur Ása og honum unni hún mest sinna barna sem hún elskaði þó öll af heilum hug. En þar sem Frigg sá lengra en en aðrir, vissi hún að Baldur var feigur. Til að reyna að vernda hann fékk hún allar skapaðar verur, menn, dýr og jurtir, og alla skapaða hluti úr málmi, tré og steini til að sverja að gera honum aldrei mein. Eftir það gátu goðin skemmt sér við að kasta hlutum að Baldri vitandi það að honum yrði ekki meint að.
En ódóið hann Loki var alltaf til alls ills vís og hann fann út að mistilteinninn hafði ekki svarið Frigg þennan eið þar sem hún hafði álitið hann of ungan til að geta valdið skaða og þannig náði hann með klækjum að drepa hann Baldur.
En Frigg gafst ekki upp og freistaði þess að ná syni sínum úr Hel. Þá var henni tjáð að hann fengi að fara ef allir hlutir, bæði lifandi og dauðir fengjust til að gráta hann. Frigg sendi þá erindreka um allan heim og bað alla að sýna ást sína á Baldri og gráta hann. Allir urðu við þeirri bón, bæði menn, dýr, steinar og málmar, því allir elskuðu Baldur. En að lokum komu sendiboðarnir að gamalli konu sem neitaði að gráta Baldur því hún hefði aldrei elskað hann. Þetta var auðvitað hann Loki kallinn í dulargervi og Baldur blessaður mátti því dúsa áfram í Helju.
Í annarri sögu af Frigg sjást dömulegir eiginleikar hennar vel, afgerandi sjálfstæði og viska. Tveir ættbálkar áttu í erjum og hélt Frigg með öðrum ættbálknum en Óðinn með hinum. Þau rifust heiftarlega um þetta skötuhjúin en að lokum lofaði Óðinn því að hann myndi láta það lið vinna sem hann sæi fyrst er hann vaknaði næsta morgun. Hann hafði auðvitað rangt við því hann vissi að rúmið hans lá þannig að hann sæi fyrst mennina í sínu liði.
Frigg sá auðvitað við klækjum bónda síns og meðan hann svaf sagði hún konunum í sínu liði að greiða hár sitt yfir andlitið svo að þær litu út eins og skeggjaðir karlar. Svo snéri hún rúminu þannig að þær yrðu það fyrsta sem Óðinn sæi er hann vaknaði. Hann var mjög hissa þegar hann vaknaði og spurði hverjir þessir síðskeggjuðu menn væru. En eins og sannur herramaður hélt hann loforð sitt og þessi ákvörðun færði ættbálk þeirra sigur . Þannig sá Óðinn að lokum að auðvitað átti hann að láta konuna sína ráða og viðurkenndi að Frigg hafði valið betra liðið.
Já elskulegu gyðjurnar mínar. Skundum á Þingvöll og treystum vor heit þann 14.júní!
Hlakka til að sjá ykkur
Gyðjuknús
a
Lífstíll | 7.6.2007 | 23:18 (breytt kl. 23:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Inga Dagný vinkona mín er ekta dama og við getum margt lært með því að deila reynslu okkar og öllum svona lekkerum og dömulegum fréttum. Hún sendi á okkur góð ráð um hvernig við ættum að haga okkur í útivistarferðum í sumar þegar sólin okkar kemur...
Til að halda sér lekkeri og elegant er gott að vera með hárið í fléttum...verulega smellið og lekkert ráð og svo náttúrulegt og unglegt og íslenskt eitthvað. Og svo aðaltrikkið...reyndar ættað frá Heiðari okkar elskulegum...að vera í smekklegu korsiletti undir útivistargallanum og láta þá skína í blúndurnar við hentug tækifæri...
Sem minnir okkur á að það eru enn tök á því að komast í lúxuskvennaferðina sem Ferðafélag Íslands stendur fyrir 15.-19.ágúst, þar sem gengið verður hinn yndislega og rómaða Laugaveg. Þetta er trússferð þannig að við getum nánast verið á hælaskóm...nei en smart væri það að vera á Nikehælum! Drífum okkur endilega elskulegu dömur! Gasalega held ég að það verði gaman.
Verð að láta fjúka með eitt dásamlegt sem ég var að prófa...
Blandið saman: 2 bollum af þurrkuðum rósum, 2 bollum af vatni og 1 bolla af vodka. Setjið í lokaða krukku og geymið við stofuhita í nokkra daga þá verður til dásamlegt rósavatn sem má nota í baðið eða setja nokkra dropa útí möndluolíu og nudda uppúr...hleypir fjöri í flesta eiginmenn og kærasta, jafnvel eldri menn sem mega ekki vamm sitt vita!!´Júnóvatæmín!!!!
Munið svo að vera góðar við ykkur og gefa ykkur eitthvað fallegt öðru hverju. Dekrið við ykkur með því að panta lit og plokk, andlitsbað..maní og pedí! Ef það er orðið áliðið mánaðarins og veskið orðið tómlegt er alltaf gott að láta renna í baðið með rósolíunni, kveikja á kertum og hlusta á góða slökunartónlist! Tala nú ekki um að stilla litlu lekkeru kristalsglasi á baðkersbrúnina og dreypa á einhverjum lekkerum dömudrykk...það er náttúrulega punkturinn yfir i-ið!
korsilettuknús
a
Lífstíll | 6.6.2007 | 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Elskulegu dömur, þetta er svo góður frasi! Ég var nú að hugsa þetta í morgun þegar ég klæddi mig í slyddugallann...verulega ósmart!Það var bara ekki um neitt annað að ræða en að fara aftur inn og fara í pils og blússu, setja upp hárið og fara í þykkar sokkabuxur, jú auðvitað bleikar blúndur og svona eitthvað soldið lekkert varð það að vera því ég þurfti að fara í kaupfélagið og kaupa inn. Fór með körfuna og keypti alls konar hollustu í kálsúpuuppskrift sem vinkona mín sendi mér frá Danmörku. Gasalega góð súpa fyrir mittismálið víst... nú verður gaman að prófa hana og sjá til hvernig þetta virkar og máta svo nýja bikiníið bleika. Verst að það skuli ekki vera leyfilegt að vera á hælum í sundlauginni... bara að sumarið fari nú að koma!
Við Kata vinkona erum byrjaðar að æfa okkur fyrir göngur sumarsins. Fyrst förum við í Kerlingarfjöllin, vonandi eru þetta soldið dömuleg fjöll og ekki mjög erfið yfirferðar. Við förum svo með Ferðafélagi Íslands í kvennaferð. Það er ekta dömuferð með trúss og alls konar svo við getum fengið okkur aðeins í staupinu á kvöldin. Voða lekkert að vera með ferðabar og kristalstaup í svoleiðis ferðum. Við ætlum að ganga Laugaveginn með nokkrum eðaldömum. ÞAð verður sól og huggulegt, ég finn það á mér! Það eru næstum 20 ár síðan ég fór síðast svo það er víst betra að fara sér hægt. Þá vorum við með allt á bakinu en núna erum við með prívatbíl sem fylgir okkur eftir svo þetta verður allt annað og miklu smartara. Enda eins gott því við verðum að vera smart í tauinu á svona göngum um hina íslensku náttúru okkar sem er svo lekker og lagleg.
Heyrumst fljótt elskurnar
óbyggðaknús
a
Lífstíll | 4.6.2007 | 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sælar elskulegu dömur,
Afskaplega ólekkert veður þessa dagana. Það er alltof mikill blástur fyrir minn smekk. Ekki nærri því eins auðvelt að vera lekker og dömuleg þegar hárið fýkur út og suður og sandkornin fylla augun! Eina ráðið er þá að kaupa sér lekkera goltreyju í björtum litum og bandaskó í stíl, varalita sig feitt og setja upp gulu sólgleraugun eða bjartsýnisverðlaunin eins og systir mín segir. Það verður bara allt sólgult í kringum mann með þessi gleraugu, alveg yndislegt og fallegt eins og þegar sólin skín.
Við fórum í dömuferð 30 saman í gær. Alveg yndislegt og virkilega skemmtilegt. Við lögðum af stað um 11 fyrir hádegi og ókum austur í Hrunamannahrepp þar sem Sigurður bóndi tók á móti okkur og sýndi okkur ættaróðalið Hrepphóla. Við skoðuðum líka kirkjuna þeirra, einstaklega falleg lítil og lekker sveitakirkja. Algjör draumur þessar gömlu íslensku sveitakirkjur! Við fórum síðan að Flúðum og heimsóttum tómatabóndana á Melum. Stórkostleg og heilnæm ræktun sem á sér stað þarna. Fengum að smakka alls konar hollustutómata og svo fengum við bleikt og afar lekkert kampavín með. Þessu næst fórum við svo að skoða Silfurber og fengum að smakka nýtínd jarðarber og enduðum svo á að skoða Flúðasveppi og smakka beint af beðinu. Alveg frábært og mjög skemmtilegt.
Við fórum svo og vígðum nýtt og glæsilegt kaffihús á Flúðum og skoðuðum gistiheimili í sama húsi. Þar fengum við kaffi og meðí! Ég verð nú að segja að þetta er virkilega lekkert og dömulegt kaffihús, blúndurúmföt og gasalega hugguleg herbergi. Ég á nú örugglega eftir að skreppa með minn í rómóferð þarna uppeftir einhverja helgina þegar vel liggur á okkur.
Eftir allt þetta fórum við svo í Hruna og heimsóttum prestfrúna þar. Hún er lærð leirlistakona og er með gallerí við túnfótinn á prestsetrinu. Afskalega flott hjá henni en frekar fáir hlutir til. Selst örugglega allt strax frá henni. Við skoðuðum kirkjuna í Hruna líka, hún er voða sæt en Hrepphólakirkjan er nú enn meira krútt.
Eftir allt þetta lá svo leiðin að Geysi í Haukadal. Þar var heldur betur tekið vel á móti okkur eins og venjulega. Við fengum dúmjúkar lambalundir og rauðvínstár og svo kaffi og grand á eftir og kókoskúlur. Gasalega gott og huggulegt, ummm!
Svo var haldið heim á leið, sungið alla leiðina úr söngbók Dísu og það voru glaðar og lekkerar dísir sem komu heim að kvöldi eftir einstaklega vel heppnaðan dag!
Hvað haldiði svo! Marianne er orðin amma! Hún hringdi og lét mig vita að það væri komin yndisleg lítil dama...svo lík ömmunni sinni. Nú verðum við dömurnar að hjálpast að og kenna Marianne aðeins með svona helstu dömuömmuuppeldisaðferðirnar því hún hefur bara átt stráka fram að þessu! Við ætlum að fara og kaupa kjóla og bleik dress á morgun...ó svo spennandi!!
Jæja elskulegu dömur, eitt svona í lokin ...munið frasana...frekar dey ég en að vera ósmart!!!
ömmuknús
a
Lífstíll | 3.6.2007 | 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur blásið duglega hér á okkur sunnlenskar dömur í dag. Ég barðist við að hengja út á snúru en gafst upp og ákvað að fara í lautarferð með barnabörnin. Við mæðgurnar fórum með nesti í körfu og teppi í skóginn græna. Þar var indælt, logn og blíða sumarsól, fuglar kvökuðu á grein og við gengum um fallega stíga og tíndum nokkra köngla til að eiga í lekkerar skreytingar síðar meir! Já það er alltaf gott að eiga svona sætt náttúrudót til skreytinga, hvort heldur er um jól eða í annan tíma.
Við komum svo heim um kvöldmatarleitið og skelltum upp soðningu, ljómandi góðir og skjannahvítir þorskbitar úr Bónus og gufufsoðnar gulrætur. Börning vilja fá stappað með smjöri, -amma gerðu löggustöð með tómatsósu!Allt látið eftir þeim enda eru þau náttúrulega fullkomin Guðsgjöf þessar elskur.
Já þið heyrið að mín er komin í hollustugírinn á ný. Fór í Heilsubúðina í dag og keypti eplaedik, Spirulinadrykkinn góða og þennan dásamlega ACidophilus sem hún Eygló í Lifandi Húsi benti mér á. Þvílíkur léttir að taka þetta inn! Ég er bara svo létt á mér og ljúf í lund!
Nú svo skokkaði ég í skóginum með börnunum og nú erum við Kata mín búnar að ákveða að fara að ganga úti og undirbúa okkur undir gönguferðir sumarsins. Við förum náttúrulega í okkar árvissu Abbalabbaferð og nú er nefndin búin að skipileggja ferð í Kerlingarfjöllin. Svo er kvennaferð 15.ágúst með Ferðafélagi Íslands um LAugaveginn, Lúxuskonuferð....Endilega skráið ykkur með! Það er enn laust fyrir nokkrar dömur...
Nú er ég að fara að horfa á æðislega dömulega mynd sem dóttir mín lánaði mér og heitir The Holiday. Heyrumst á morgun elskurnar.
Lifum og leyfum öðrum að lifa!
Lautarknús
a
Lífstíll | 31.5.2007 | 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sólin er sönn dama eins og við. Hún flaug með okkur til Íslands og gleður okkur nú dag eftir dag. Ég rauk auðvitað til og þvoði af rúmunum og hengdi út eins og sannri íslenskri húsfreyju sæmir. Ekki nóg með það, auðvitað verður að nota þerrinn og viðra öll rúmföt og svo alla lekkeru kjólana og blúndudressin úr fataskápunum! Það jafnast fátt á við að hátta ofan í tandurhreint rúmið sitt, angandi af sólskini.
Við íslensku dömurnar erum einstakar og gleðjumst af hjarta þegar sólin skín. Allt verður svo fallegt og allir verða svo brosmildir! Hafið þið ekki tekið eftir þessu? Jú það veit ég elskulegu dömur að ykkur líður alltaf vel en best þó er sólin skín.
Teklúbburinn sem fagnar sínu tíunda starfsári nú á haustmánuðum tók inn nýja virkilega lekkera tedömu í gær. Þetta var auðvitað einstakur viðburður í sögu félagsins enda daman að sunnan og mjög forfrömuð. Umsókn hennar hafði legið fyrir hjá stjórninni til umsagnar og íhugunar í nokkur ár en að vandlega íhuguðu máli var ákveðið að slá til og veita dömunni inngöngu.
Hún stóðst auðvitað inngönguprófið með sóma og mun einnig verða klúbbnum til sóma hérlendis sem erlendis. Eftir að hafa ekið uppábúin í eðaldrossíu teklúbbsins um Flóann, Selfoss og nágrenni, þreytt ýmsar þrautir og komið fram vilja teklúbbsins á öllum helstu menningarstöðum Suðurlands, var endað heima á Bakkanum þar sem við elduðum dýrindis máltíð og drukkum með Kaliforníuvín úr Napadalnum en þangað hafa Tesystur einmitt farið í menningarreisu. Það var síðan setið framundir morgun og farið yfir helstu aherslur klúbbsins og æft stíft og af alefli
Við munum senda inn myndir af þessum viðburði fljótlega svo fylgist endilega með elskulegu dömur
Gangi ykkur allt í haginn og látið sólina skína í ykkur og á
Munið að taka alltaf tíma fyrir tesopa
ilmandi sólarknús
a
Lífstíll | 30.5.2007 | 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sælar elskurnar,
Bara örstutt hér í morgunsárið danska. Hún mamma er svo klók og hugguleg dama og hefur ráð undir rifi hverju þessi elska.
Nú hefur hún kennt mér til dæmis eitt sem hefur reynst okkur í familiunni svo einstaklega vel og verið mikil heilsubót. Það er að drekka á fastandi maga 2 tsk af eplaediki úr heilum eplum, keypt í heilsubúð og 1 litla tsk af hunangi. Þetta er ótrúlega gott fyrir allt systemið og dömur sofa svo vel af þessu og eru enn lekkerari og laglegri fyrir vikið! Heldur frá öllum bakteríum og bólgum, hreinsar blóðið, eykur þrótt...það þrífst bara engin óværa á eða í!
Dásamlegt ráð og gott eins og allt sem kemur frá mömmum okkar sem eru jú yfirklassadömur.
Erum nú að taka okkur saman í litla gula húsinu okkar. Leggjum af stað til Köben um eftirmiððdaginn
Heyrumst á morgun elskulegar
a
Lífstíll | 28.5.2007 | 06:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hún er ansi hreint röggsöm hún nágrannakona mín. Hún kom og dreif okkur öll í messu í morgun í Babtistakirkjunni hér í Brande. Okkur hefur lengi langað að skoða þessa merkilegu kirkju sem er hin óvenjulegasta sem ég hef séð. Hún var byggð í sjálfboðavinnu og allt efni í hana er endurnýtt. Gamlir múrsteinar og trjálurkar, risastór kross hangir utan á henni í sverri keðju. Kirkjubekkirnir eru úr trjábolum og stór gluggi gerður í risastóru holræsaröri, frekar flott!
Við hlýddum á Hvítasunnumessu á dönsku, þar sem inntakið var náungakærleikurinn og hversu mikilvægt það væri að muna að Guð býr í hverju okkar og við eigum því alltaf að láta okkur þykja vænt um hvert annað og reyna að gera öllum gott. Hugsa fallega um náungann og forðast slúður og ljótar hugsanir sem auðvitað koma alltaf verst við okkur sjálf. Svo var sungið mikið og ungt fólk kom fram og talaði. Þetta var afskaplega skemmtilegt og við lærðum heilmikið.
Nú er farið að síga á seinni hlutann á þessari Danmerkurdvöl okkar með foreldra og tengdaforeldra. Alveg hefur þetta verið yndislegur tími. Við erum búin að gera alveg ósköp í húsinu og garðinum. Ráða moldvörpubanann mikla Elvin sem kemur í næstu viku. Moldvörpur eru alveg hræðileg plága hér og skemma alveg ósköp. Gott að við höfum þær ekki heima á Fróni.
Bryndís okkar kom með börnin sín tvö frá Árósum í gær. Við vorum mikið ánægð að fá hana þessa elsku. Ég verð nú að segja að hún er orðin gasalega lekker dama og hefur forframast afar mikið her ude i Danmark! Hún var með svo lekkert lakk og er virkilega að undirbúa sig undir að komast inn í dömuklúbbinn og njóta lífsins lystisemda! Við dömurnar vitum nú hvað það þýðir!
En ég er hrædd um að ég verði nú að hitta á hana Hildi mína þegar ég kem heim. Hún lánaði mér svo yndislega bók um gyðjuna okkar hér á Jótlandi, Thyru drottningu Gorms hins gamla. Sú var nú ekkert blávatn! Hún átti með Gormi sínum tvo syni, Knud og Harald blátönn sem kristnaði alla Danmörku og Noreg. Þau hjónin eru heygð hér í Jelling og ég fór og vitjaði þeirra. Sagan segir að þau Gormur og Thyra hafi deilt um það hvort væri betra að vera heiðinn eins og hann eða kristin eins og hún. Thyra sagði að það mundi verða ljóst eftir þeirra dag. Hvað kemur svo á daginn...ofan á hennar gröf eða haug, spratt upp helg laug þar sem margir hafa leitað sér lækninga. Já ég held að við dömurnar förum til Jelling í Pílagrímsferð og hyllum Thyru okkar.
Nóg um þetta í bili.
Við leggjum í hann á morgun, keyrum til Köben og fljúgum svo til Íslands. Þá verða teknir upp enn frekari dömusiðir og fram bornir ykkur og okkur til heilla elskulegu dömur!
Smáviska úr bókinni góður frá Lúndúnadömunni:
Vertu í mómentinu elskulega lekkera dama
Heimspeki búddista segir m.a. að ef við einbeitum okkur að augnablikinu, að því sem er að gerast hér og nú er næsta víst ef ekki alveg 100 % sikkert ,-að við tökum hlutunum eins og þeir gerast af æðruleysi og umburðarlyndi. Þar með hættum við að hafa áhyggjur af ókomnum hlutum eða velta okkur uppúr því sem var og við hefðum átt að gera eða segja öðruvísi...
Verum í mómentinu og afeitrum okkur af ahyggjum til frambúðar!
Góður punktur elskurnar
knús og kram fra Jylland , det herlige!
a
Lífstíll | 27.5.2007 | 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Elskulegu dömur,
Smá viskukorn úr bókinni góðu:
Gerum eitthvað gott í dag, vinnum í garðinum, verum úti í náttúrunni og náum tengslum við hana, gróðursetjum, vökvum, verum úti í sólinni, sáum, plöntum, gefum aftur til jarðarinnar sem gefur okkur allt það besta, gerum eitthvað gott til að bæta umhverfið og vernda ósonlagið okkar.
Hjólum og spörum bílinn.
Det er saa dejligt i Danmark!
hjertelig knus og kram
a
Lífstíll | 24.5.2007 | 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Mínir tenglar
- Félag kvenna í atvinnurekstri Allar konur standa saman
- Nýsköpunarmiðstöð Íslands Endalaus spennandi námskeið fyrir okkur
- Líkami, hugur og Sál Frábær staður til að byggja sig upp.
- Rósa Traustadóttir Æðislega jógastöð á Selfossi
- Sumarhús í fyrsta flokki Einstaklega fallegur staður undir fjallinu Búrfelli.
- Flottasti ferðamannastaður á Íslandi Alltaf gott að koma að Geysi
- Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri og Sandvíkurhreppur My hometown:-)
- Húsið á Eyrarbakka og Byggðasafn Árnesinga Eitt skemmtilegasta safn á Íslandi
- Safnaklasi á Suðurlandi ÞAð er alltaf eitthvað að gerast á Suðurlandi
- Menningarráð Suðurlands Alltaf eitthvað gott starf í gangi
- Veitingastaður á Eyrarbakka Rómantískur staður og maturinn klikkar aldrei!
- Endalaus fróðleikur ein flottasta heimasíða sem ég hef séð!
- Listakonan Þórdís Frábærar myndir
- Fyrsti verslunarstaður Íslendinga Skemmtilegasta þorp á Íslandi
- Gallerí Gónhóll á Eyrarbakka Gisting, karkaðir, ráðstefnusalir og fleira
- Lista og tungumálamiðstöð fyrir börn og unglinga Spennandi námskeið fyrir alla krakka!
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar