Hér erum við enn í sól og sumaryl. Froskarnir og fiskarnir í tjörninni hafa fjölgað sér. Við erum á fullu allan daginn í garðinum og vinnum vel. Það er málað og gróðursett og skafið og skrapað, sungið og borðað...ó my ó my..hvað það er góður matur her i Danmark..
Við fórum í dag og skoðuðum mjög flottan búgarð, 10 hektara jólatrésbúgarður. Nú er det sporgsmalet hvis vi skal köbe den og hygge os hele aret i Danmark!
Allt gengur svo vel. Við skemmtum okkur vel en höfum farið heldur lítið í búðir og höfum ekki skoðað nein dömuföt. Kannski gerum við það á morgun.
Miranda nágranni og hennar familia koma á morgun og borða hjá okkur. Við verðum 13 við matarborðið og ég held ég verði með fyllt kalkúnabrjóst, það er svo lekkert og smart!
Hér eru allir í heyskap. Fyrsta slætti er lokið og menn eru ánægðir með uppskeruna. Við borðuðum nýjar kartöflur í kvöld og ungverska gúllassúpu. Það var ósköp gott og notalegt. Í gærkvöldi spiluðum við vist en núna spilar pabbi á gítarinn og við syngjum öll með.
Verð að fara og syngja með og halda uppi fjörinu með þeim. Þau eru svo skemmtileg þessar elskur.
Músíkknús
a
Lífstíll | 24.5.2007 | 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Elskulegu lekkeru dömurnar mínar,
Nú erum við í Danmörku. Úti á Jótlandi í sól og sumaryl í litla sæta gula og dömulega sveitabænum okkar með stráþakinu. Það er svo yndislegt að vera hér. Það er ótrúlega margt sem dama getur lært af dönunum. Þeir eru svo mikið í núinu, allir alltaf að njóta augnabliksins! Það er svo mikilvægt. Ég áttaði mig á því þegar ég fór að vera hér að ég er bara þó nokkuð stressuð og er svo oft að drífa mig eitthvert... en ég er að laga þetta! Ég er að venja mig á að vera á staðnum og njóta þess að tala við fólk og hlusta. Ekki bara að hugsa um allt sem ég á eftir að gera. Ég vanda mig á hverjum degi við að lifa lífinu með fullri meðvitund og njóta þess. Nú veit ég hvað ég vil og hvert ég stefni en flýt ekki með hugsunarlaust.
Við erum hér með foreldra okkar. Það er svo gaman og þau eru svo ánægð öllsömul. Í dag setti tengdapabbi upp fyrir mig snúrustaura svo ég get þvegið og hengt út í fyrramálið. Það er ekkert sem jafnast á við útiþurrkaðan þvott. Hugsa sér hvað það er dömulegt að lauga sig og bera á sig gott krem og skríða svo uppí tandurhreint og ilmandi rúm! Umm það er svo mikill lúxus og dama sefur eitthvað svo vel og dreymir svo fallega.
Ég fór svo með foreldra mína og tengdamömmu í bæinn og við fengum okkur öl og smörrebröd í sólinni. Síðan fórum við og keyptum okkur matjurtir, kryddjurtir og appelsínutré, já og ólívutré líka. Auk þess keyptum við pelagóníur, rauðar og hvítar í alla pottana og mamma gróðursetti þetta allt með sínum grænu puttum. Hún gaf mér líka rósir sem við ætlum að gróðursetja á morgun. Þetta er svo skemmtilegt. Gúndi minn eldaði svo pörusteik og brúnaði kartöflur og við höfðum það virkilega huggulegt í kvöld.
Á morgun ætlum við að keyra út á Hvide Sand sem er vesturströndin hér. Það spáir rjómablíðu á morgun svo við eigum góðan dag framundan eins og vant er. Það er dásamlegt!
Vinkona mín í London gaf mér svo skemmtilega litla bók til að hafa í veskinu,- alltaf og lesa í henni í hvert skipti sem mig vantar andlega upplyftingu. Ég ætla að deila með ykkur vísdómnum úr henni á hverjum degi. Ég opna hana og skrifa til ykkar...nú kemur:
Vatn, vatn, vatn
Drekkum 1 og 1/2 lítra af vatni daglega. Það gefur okkur rétt rakastig í húðina, endurnýjar og hreinsar hana, hreinsar allt systemið og örvar okkur til dáða.
Haldið áfram að vera fallegar og dömulegar elskulegu dömur og munið að njóta þess í botn!
Við eigum allt það besta skilið
jyllands knus og kram
a
Lífstíll | 21.5.2007 | 20:37 (breytt kl. 20:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Elskulegu dömurnar mínar,
Ég er að eldast! :-) Ég fann það þegar ég flaug yfir landið okkar í gærkveldi og sólin var að setjast, ísinn hjúpaði stóran hluta og sandur mest allt hitt...en grænir skörulegir grastopparnir hreyktu sér glaðir og nutu útsýnisins, engin tré að flækjast fyrir þeim...- já þá fann ég hvernig mitt lekkera dömuhjarta hrærðist og væntumþykjan flæddi útí æðarnar og ég hugsaði að þetta væri landið mitt, fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar... svei mér þá hvað ég var heppin að hafa hvíta blúnduvasaklútinn minn við hendina. Já elskulegar, við erum heppnar að fjallkonan er dama og við höfum erft þessi eðalbornu dömugen í gegnum margar kynslóðir kvenna sem hafa virkilega þurft að strita til þess að við getum haft það svona gott.
En hvað það er alltaf gott að koma heim í rúmið sitt mjúka. Ég var nú samt virkilega ánægð með ferðina. Við unnum mikið og afrekuðum helling, áttum svo góðan dag í London. Æðislegar búðirnar og tískan er eitthvað svo gasalega lekker og dömuleg núna, mig langar bara í allt mögulegt. Verð að taka til í fataskápunum og gefa í Rauða Krossinn svo það komist fyrir einhver ný dress sem ég rekst örugglega á fljótlega og alltaf er ég að sjá eitthvað nýtt og ilmandi dömulegt.
Við Kata vinkona fórum svo á Eyrarbakka í dag og hittum Rauða-Krosskonurnar og við undirbjuggum markaðinn um helgina. Þetta verður svo skemmtilegt og gamaldags allt saman. Við erum strax farin að tala um haustmarkað og uppskeruhátíð líka..haustskipið kemur! Hljómar spennandi. Pabbi er langt kominn með sitt eldri borgara verkefni og við kynnum það líka.
Við höfum verið að skoða þetta í öðrum löndum og þar er allt önnur hugmyndafræði í gangi en hér varðandi eldri borgara. Fólk heldur sínu eins lengi og það getur og vill og þó það njóti þjónustu er það ekki skikkað til að setja inn tekjurnar sínar og fá svo skammtaða vasapeninga, 50.000 á mánuði. Fólk heldur áfram að vera einstaklingar þó það eldist og getur borgað fyrir sig og valið fyrir sig. Það er til dæmis alveg hræðilegt að hjón séu aðskilin bara vegna þess að þau eru orðin gömul og annað þarf að fara á hjúkrunarheimili en hitt ekki. Þetta gerðist nú bara hér útí bæ hjá dömu sem ég kannast við, að maðurinn hennar var sendur austur á Kirkjubæjarklaustur en hún er heima. Ekki með bílpróf og getur aldrei hitt manninn sinn sem hún hefur verið gift í 53 ár og þau hafa aldrei sofið án hvors annars nema eina nótt sem hann fór í hrotumeðferð á Vífilstaðaspítala fyrir 10 árum eða svo! Þvílík ekkisen hörmung.
Aldraðir eiga að vera áfram hluti af samfélaginu og virkir eftir því sem þeir kjósa sjálfir. Það er ótrúlegt að koma inn á elliheimili hér og sjá meðferðina á gömlu fólki. Allt í einu eru þau orðin vistmenn! Vistmenn , hræðilegt orð og minnir á nauðunagvist! Þau fá ekki einu sinni að ráða því hvort þau vilji vera með öðrum í herbergi eða hvernig herbergið þeirra er hvað þá heldur að ráða því hvað er í matinn eða hvort þau vilja fá sér í staupinu eða reykja.
Við verðum að gera okkur grein fyrir því að margir flytja að heiman því þeir þurfa meira öryggi eða umönnun en það þarf að vera þannig að aldraðir geti skapað sér sitt umhverfi sjálfir, flytji með sér minningar og tengsl sem hafa orðið til á æviferlinum og haldið sínu munstri að mestu leyti. Dvöl á stofnun hefur oft neikvæð áhrif á heilsufar fólksins okkar, ekki afþví að það sé verið ótuktarlegt við það, nei öðru nær. Það bara fær oft svo mikla þjónustu og forræðishyggjan er svo mikil að það hættir að þurfa að lifa sjálfstætt eða hugsa og taka ákvarðanir. Og það er hættulegt heilsunni að vera skilinn frá sínum nánustu á gamals aldri! Ég ætla rétt að vona að við dömurnar getum breytt þessu! Nú eru margar lekkerar konur í pólitíkinni og þær láta örugglega gott af sér leiða þessar elskur ef ég þekki þær rétt.
Jæja elskurnar mínar.
Ég lenti í smábrauðáti í dag og nokkrar súkkulaðirúsínur hrutu óvart niður í hálsinn... en á morgun er kominn nýr dagur og sporin sem ég steig í nótt, fyrnast fljótt
Höldum okkur á hollustulínunni og einblínum á allt það góða í okkar fari og annarra
Nætínæt leidís
a
Lífstíll | 17.5.2007 | 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sælar elsulegu dömurnar mínar,
Nú er ég hér í miðri Evrópu, nánar tiltekið í Bratislava eða Bratz eins og við köllum þessa dásamlegu gömlu og virðulegu borg. Hér eru sko lekkerar dömur, allar á hælum og með hatt og veski í stíl. Gasalega gott verð og gaman að versla hér stelpur...verð að gefa mér tíma til að koma hér einhverntíma með stóra tösku og versla big time!
Hér var 30 stiga hiti í gær en rigndi svo í dag. Við erum að leggja af stað á flugvöllinn og verðum í London á morgun. Brynhildur vinkona mín á afmæli og ég verð aö bjóða henni í lekkran dömulöns, ekki satt!
Skemmtilegt handverk hér í Bratislava. Alls staðar eru konur með sína eigin hönnun og sæta búðarglugga sem gaman er að gægjast í. Meira að segja ein gata bara með hönnun á konufötum eftir konur..konur hanna fyrir konur, auðvitað!
Tekur um 1,5 tíma frá CPH eða London...lítið mál en svo margir spennandi staðir í fyrrum Austur-Evrópu!
Hér eru líka mjög lekkerir og dömulegir veitingastaðir og mín hefur haldið sig við hollustuna. Eina sem er ekki nógu gott er að ég borða ekki nógu oft hér. Þetta er stutt stopp og við erum á þeytingi allan daginn og þá gleymist oft að borða. 'I gærkvöldi borðuðum við einn banana í lyftunni á leið uppá herbergi því við vorum að sálast úr hungri. Eitt smakkaði ég alveg snilld...að vera með mintuplöntu í eldhúsglugganum gefur manni inspírasjón og gott að klippa niður nokkrar greinar í ferskt mintute...og smá hunang skemmir ekki stemminguna. Sérstaklega gott fyrir svefninn og borða smá döðlur með til að byggja upp draumalífið og sofa vel!
Hlakka til að komast í jóga í Lifandi húsi á fimmtudagsmorgun.
Svo förum við á fullt við að undirbúa flóamarkaðinn á Eyrarbakka. Hvetjum allar til að taka til í skúrnum eða geymslunni, sjóða sultu baka brauð og ná sér í smáaukapening um næstu helgi þegar Vorskipið kemur á Bakkann. Það kostar ekkert að vera með, bara gaman og svo má styrkja Rauða Krossinn.
Önnur góð hugmynd sem við þurfum að framkvæma og ég hef séð víða, er að einn dag í mánuði setja allir dót sem þeir eru hættir að nota út á stétt og svo má fólk bara hirða það sem það vill og ruslabíllinn tekur svo restina á mánudeginum...umhverfisvænt og samfélagsleg samhygð í verki!
Gyðjan blessi ykkur
bratislavaknús
a
Lífstíll | 15.5.2007 | 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Elskulegu dömur!
Fall skiptir ekki eins miklu máli og hitt að geta staðið upp aftur.
Hvernig fer þetta allt saman? Nú er klukkan að ganga tvö og við hjónakornin sitjum hér og fylgjumst spennt með...eða réttara sagt hann þessi elska og svo segir hann mér hvernig staðan er og ég kinka létt kolli. Ég held þetta fari allt vel. Þetta er ekki svo nauið, ha! Þetta er allt ágætis fólk held ég, mesta furða að fólk nenni að standa í þessu.
Við systurnar áttum góðan dag. Ég tók drossíuna út og var á rúntinum í dag. Fyrst fórum við á Stofuna og systir mín lagaði dúið þannig að mín yngdist um ein 10 ár á tveimur tímum. Hún er búin að var á námskeiði þessi elska og lærði þvílíkt köt sko, vá hvað hún er flink!
Við fórum svo á allar kosnigaskrifstofurnar og var alls staðar vel tekið á móti okkur. Það er sem ég segi, mikið indælisfólk í þessum framboðum. Við ókum um allt og tókum aukahring í hverju hringtorgi. Ég ók öllum helstu stuðningmönnum mínum á kjörstað og alls staðar vakti DeSoto Sportsman mikla athygli, hann er svo flottur þessi elska.
Fór svo með 5 farþega í partý á Stokkseyri í hús sem er jafngamalt DeSoto...skemmtileg tilviljun!
Þetta var bara skemmtilegt allt saman. Við borðuðum náttúrulega allt mjög óhollt í dag, brauð og kökur og súkkulaðirúsínur, hvað þá heldur annað! Held það verði brauð og vatn á morgun...
Flýg til London með fjögur vélinni á morgun og síðan til Bratislava á mánudagsmorgun. Þar er vinna framundan en svo verð ég í London á miðvikudag og kem þaðan heim á miðvikudagskvöld. Reyni þá að sjoppa eitthvað dömulegt í London en verð í bandi elskulegu dömur .
Vona að þið séuð ekki leiðar yfir kosningunum. Þetta lagast strax á morgun og við getum þá farið að snúa okkur að dömulegri iðju.
Berið vel á ykkur og verið mjúkar
kremjuknús
a
Lífstíll | 13.5.2007 | 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég verð nú bara að senda ykkur eina æðislega uppskrift elskulegu dömur! Ég var að dunda mér í eldhúsinu í kvöld og tíndi allt mögulegt úr ísskápnum sem var stútfullur af lífrænu grænmeti sem ég fékk í áskrift í gær frá Akri. Þetta er svo sniðugt fyrirkomulag og ég hvet ykkur til að prófa þetta á www.akurbisk.is
Ávextirnir eru svo krúttlegir og eðlilegir, þið vitið svona frekar litlir en bragðið dömur mínar er ógleymanlegt. Jæja nú skal ég snúa mér að eldamennskunni:
Fyrst skar ég niður tvo lauka, hálfan hvítlauk og reif ca 5 cm af engiferrót. Setti þetta í skál. Svo tók ég alls konar grænmeti, kartöflur einar 5, 1 sæta kartöflu, 1 haus af blómkáli, 1 kvist af brokkóli, 4 gulrætur, 1/2 eggaldin og skar í sæta og dömulega búta.
Svo setti ég villihrísgrjón í pott og saltaði smá og lét fara að malla/þau þurfa um hálftíma.
Ég setti svo smjörklípu í pottinn og lauk, hvítlauk og engifer og lét malla í smástund og bætti síðan útí: 2 msk karrí, 1 tsk chilipipar, 1 tsk sjávarsalt, 2 tsk cuminduft, 2 tsk kórianderduft, 2 tsk kardimommuduft smá nýmalaðan pipar. Þetta mallaði í smástund og svo bætti ég 2 dósum af kókosmjólk útí og enn lét ég malla í einar 5 mínútur.
Nú setti ég allt grænmetið útí og mallaði áfram í einar 10-15 mínútur. Á meðan fór ég í Sollubók og bjó til Hesilhnetupestó sem er á bls 116. Ég átti ekki allt til í það þannig að mín útgáfa er svona:
1 poki hesilhnetur 100 gr. og annar eins skammtur af möndlum settur á pönnu og þurristaður þar til þær verða gylltar. Svo set ég allt eftirfarandi í matvinnsluvél og mauka þar til blandan er silkimjúk:
1 búnt basillauf, 1 dl. rúsínur, 1 tsk steinselja, 1 tsk timian, 1 tsk sjávarsalt, 4 hvítlauksrif, 1/2 dl sítrónusafi, 1 dl ávaxtasafi blandaður frá Biotta Vita 7, 1 dl ólífuolía og svo síðast nýristaðar heslihnetur og möndlur.
Þvílíkt góðgæti og jammi namm... við borðuðum 3 en eigum nóg á morgun líka þannig að þetta er dugnaðarlegur skammtur elskurnar mínar.
Nú er maðurinn minn að horfa á pólitíkina í sjónvarpinu og er svo spenntur yfir þessu öllu , þessi elska. Ég r að hugsa um að nota tímann á meðan hann er svona vær og góður þarna inni og búa mér til andlitsmaska kartöflum og haframjöli, já og fara í fótabað á meðan....
Svona förum við að:
Blandið saman 160 ml af jógúrt og 5 ml af eplaediki. Berið þetta á fæturnar og látið vera á í 10 mínútur. Þetta er ótrúlega gott við hörðum hælum en það slær allt út að fara svo í fótabað á eftir þar sem við látum eplaedik í baðvatnið því það er mjög frískandi og kemur í veg fyrir fótsvita.
Andlitsmaskinn er þannig gerður að við tökum 4 litlar hráar kartöflur og skellum þeim í blandarann ásamt 2 tsk af haframéli. Nuddið maukinu í andlitið og látið vera í 15 mínútur áður en þið hreinsið svo af með volgu vatni. Á meðan er gott að leggja hráar þunnar kartöflusneiðar yfir augun, það dregur úr bólgum og dökkum baugum auk þess sem kartöflurnar eru stútfullar af B- vítamíni sem er best að taka inn á kvöldin til að tryggja okkur góðan nætursvefn sem er auðvitað algjör nauðsyn fyrir svona lekkerar dömur eins og okkur.
Þetta er náttúrulega alveg dásamlegt og miklu meira út úr þessu að hafa en að hlusta á þessa blessuðu pólitíkusa rífast á skjánum. Aumingja fólkið að láta hafa sig í þetta! Ég vona bara að þau fari ekki illa útúr´essu!
Ég veit ekki enn hvað ég á að kjósa. Þetta er allt ágætisfólk en hún amma mín heitin sagði mér að það eina sem væri öruggt í þessu væri að kjósa eftir útlitinu. Hún til dæmis kaus einu sinni Ólaf Ragnar því henni þótti hann hafa svo fallegt hár. En hún sagði seinna að hún hefði farið að horfa meira á það hvort þeir bæru sig vel og væru heiðarlegir til augnanna, hvort konurnar væru lekkerar og dömulegar á svona eindreginn og ákveðinn hátt.
Ef ég skoða úrvalið hér á Suðurlandi þá er Björgvin Samfylkingarmaður náttúrulega laglegastur, Árni Matt er nú frekar huggulegur líka en Bjarni Harðar vinur minn langskemmtilegastur og Alda vinkona mín langmesta daman og meira að segja Auður Hildur sálufélagi minn til sl. 100 ára amk. er svo á lista VG. Ég er nú samt höll undir stefnu D listans að mörgu leyti því ég trúi á einstaklingsframtakið en vil þó að við hjálpumst öll að og síðan er ég mjög umhverfissinnuð og er ekki ánægð með Dlista stefnuna þar þó ég viti að við verðum að virkja til að hafa orku en er ekki nóg komið ?
Já það verður erfitt fyrir mig að kjósa á morgun. Ég ætla að sjá til hverju draumagyðjan hvíslar að mér í nótt.
Sofiði vel elskulegu dömur
kosningaknús
a
Lífstíll | 11.5.2007 | 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við hér í Suðurlandsdeildinni byrjuðum daginn vel á Rope Jóga í Lifandi húsi hjá henni Eygló, þeirri elskulegu og gefandi stúlku. Fórum svo brosandi út í daginn og hlökkuðum til að eiga þennan góða dag.
Sótti grænmetið mitt og ávextina lífrænu á Olís og borðaði peru og drakk te. Eygló segir að dömur sem vilji auka mittismálið eigi að borða kolvetnin á kvöldin. Það er nema auðvitað grænmetið sem má borða alltaf, ótt og títt og mikið..
Semsagt að borða epli, perur, plómur og frosin ber nema vínber á morgnana, holla fitu, hnetur og fræ eða avocado, fisk, AB mjólk og grænmeti fyrir 16.00 og svo kornmeti, hafragraut, hrísgrjón, brauð, aðra ávexti...eftir kl. 16.00 og svo helst ekkert efir kl.20.00 Nú prófum við þetta, ég veit af eigin reynslu að Eygló er snjöll og hún er líka lærð í næringarþerapíu og allt. Meira segja frá Danmörku sem er sko gott land þar sem lífrænar vörur eru ódýari en venjulegar og þeim er alltaf stillt fremst!!!Lærum af þeim!
Nú erum við að ljúka skráningu í dömuferðirnar. Enn er þó eitthvað laust í fyrstu ferðina 25.ágúst eða ég held það. Hafið endilega samband. Þegar við höfum fyllt hópana þurfum við að hittast og ákveða hvað við viljum gera þessa daga, bóka okkur og ákveða hve lengi við ætlum að vera hver fyrir sig og allar fyrir allar
knús í bili
a
Lífstíll | 10.5.2007 | 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lenti aldeilis áðí...fór á fund með miklum kræsingum...byrjaði vel, fékk mér jurtate en svo kom maður, ágætis maður sko og bauð mér rjómapönnuköku. Þessi maður þekkir ekki mig og samband mitt við pönnukökur, það er alveg kristaltært. Ég er alin upp við dásamlegan pönnukökuilm sem lagðist yfir heimilið, mjög reglulega og þá var sama hvort það var hjá mömmu eða ömmu, við systkinin átum jafnóðum og bakað var og aldrei höfðu þær undan sama hvað voru margar pönnur í gangi. Nú ég fékk mér semsagt eina pönnuköku og byrjaði að borða ...afar hægt og rólega og það var alveg ágætt en samt ekkert alveg sérstakt. Getur verið að pönnukökufíknin sé dauð? Hefur hún kannski skolast út með candita sveppnum? Ég hætti meira segja eftir að hafa aðeins nartað í pönnukökuna og fann strax að ég var svolítið uppþembd og bara strax vembd og leið ekki vel. Nú líst mér á það dömur mínar...fór svo heim og eldaði ljómandi góðan grænmetisrétt og fannst hann vera betri en pönnukökur.
Þetta er alveg ótrúlegt..nú er það spurning um það sem næst er á eftir rjómapönnukökum...ís í brauðformi! Og hvað með allt súkkulaðið? Ég er nú ekki farin að borða það ennþá en við hittumst í gær og ákváðum að skipuleggja pílagrímsferð til Brugge í Belgíu fyrir konur sem elska súkkulaði. Brugge er yndilegur lítill bær sem er heimsþekktur fyrir súkkulaði og súkkulaðiilmurinn liggur í loftinu þarna. Eldgömul lítil og sæt hús, sum skökk og skæld en öll svo krúttuleg og alls staðar eru súkkulaðibúðir.
Já við ákváðum semsagt að undirbúa okkur með því að hittast reglulega og vinna upp súkkulaðiþolið. Borða bara ekta súkkulaði eins og er svo gott og lífrænt úr heilsubúðinni, horfa á Chocolate í ullarsokkum, allar í einum bing og borða súkkulaði og drekka það og svo er hægt að fá það í kremi líka sem er borið á magann og býr til sixpakk! Þetta er satt, það sem snyrtivöruframleiðendur láta sér detta í hug er náttúrulega alveg óborganlegt elskulegu dömur mínar,- látum samt glepjast, það er svo gaman...
Jæja, annars gengur allt vel. Grænmeti er enn aðaluppistaðan á matseðlinum en eitt og annað hollt og lífrænt slæðist inn. Á morgun ætla ég að hafa epli í morgunmat. Þá sker ég þau í báta og legg á disk, dassa yfir lífrænum kanil og slettu af fræjum, laga mér svo gott te og drekk með þessu. Afar huggulegt og dömulegt. Í hádeginu fæ ég mér svo salat, bara alls konar með smá túnfiski og fetaosti, sólþurrkuðum tómötum og ólífum. Um miðjan daginn fæ ég mér te og hrökkbrauð með hnetusmjöri, kotasælu og tómötum...en ég veit ekki með kvöldmatinn. Ég verð í Reykjavík svo sennilega vel ég mér einhvern dýrlegan grænmetisrétt á einhverju góðu veitingahúsi þarna fyrir sunnan, þau eru svo mörg og spennandi.
Hér kemur smáspeki inní daginn ykkar elskulegu fallegu konur:
Munið að vera góðar og elskulegar við alla sem þið mætið í dag en allra bestar við ykkur sjálfar. Munið að þið eruð yndislegar og fallegar dömur og þótt gott sé að bíða átekta er betra að reyna á sig...sem þýðir ?Við látum allt þetta góða byrja hjá okkur. Ef við viljum breyta einhverju þá hugsum við aðeins um það hvað við getum gert til að breyta þessu en bíðum ekki og ætlumst til að einhver komi og breyti þessu fyrir okkur. Við getum allt sem við viljum...stundum vitum við bara ekki alveg hvað við viljum en við erum að vinna í því!
klessuknús
a
Lífstíll | 10.5.2007 | 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Já elskulegu dömur nú megum við fá okkur fisk á morgun ef við viljum!
Þeesi dagur var dásamlegur, borðaði epli, banana, drakk spirulinadrykkinn og fékk mér meira að segja mangó! Alltaf bara lítið og fór afar varlega.
Það er svo gott að hlusta vel á líkamann og finna hvað fer vel í okkur.
Tillaga að góðum og hollum degi á morgun gæti verið að fá sér indíánadrykkinn görótta á fastandi maga og síðan að elda tröllahafragraut með fræjum og kanil. Um miðmorgun er gott að fá sér eitt epli og svo í hádeginu er hægt að skreppa á salatbarinn eða fá sér lífræna jógúrt, nú eða borða afganginn frá í gær fyrir þær sem voru svo minnugar að taka hann með í fína nestisboxinu okkar bleika. Um miðjan daginn er gott að fá sér rauðrunnate, það er gasalega vatnslosandi og endurnærandi. Ekki er verra að borða með þessu smá hrökkbrauð með tómötum og agúrku eða nasla í bitafisk, söl eða smáhnetur.
Um kvöldmatarleitið er svo veisla eins og venjulega. Gufusoðinn þorskur og allt það besta grænmeti sem við eigum og með þessu öllu er :
Besta gromms í heimi
Jógúrtsósa
1 dós lífræn jógúrt
1 msk matarolía
2 msk rifinn engiferrót
1 tsk ceyennepipar
1 tsk garam masala
1 tsk turmerik
1 tsk agavesíróp eða hlynsíróp
1 tsk salt
Þessu öllu hrært saman í skál
2 laukar sneiddir
1 lúka af möndlum brytjaðar
1 msk rúsínur
2 1/2 dl villihrísgrjón
1 msk matarolía
8 dl vatn
2 lárviðarlauf
Hellið vatninu yfir grjónin og sjóðið ásamt lárviðarlaufinu samkv. leiðbeiningum á pakkanum.
Eftir að hafa soðið hrísgrjónin og sneitt laukinn er möndlum, rúsínum, lauk og hrísgrjónum blandað útí jógúrtblönduna. Setjið eina msk af olíu á pönnu og brúnið hrísgrjónablönduna í stutta stund.
Með þessu berum við fram í litlum skálum, rúsínur, pistasíuhnetur, kókosmjöl, saxaðar döðlur, saxaðar agúrkur og bananabita
Njótið svo vel, borðið hægt , tyggið vel og haldið áfram að vera glaðar og fallegastar þannig
dömuknús og kram
a
Lífstíll | 9.5.2007 | 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Elskulegu lekkeru dömuskinnin mín.
Í dag var fyrsti dagurinn hjá okkur eftir hreinsun og við héldum virkilega uppá daginn. Fórum í bæinn og borðuðum kræsingar á veitngastofunni Maður lifandi. Réttur dagsins var gómsætt grænmeti , kjúklingabaunir og hýðishrísgrjón...umm þvílíkt jammi namm! Pössuðum okkur að borða hægt og fórum varlega í þetta allt saman. Svo fórum við og versluðum okkur nokkur litrík dress í litlum númerum...góðan bursta til að skrúbba húðina og lífræn krem og olíur á kroppinn okkar heilbrigða og ánægða. Allt voru þetta verðlaun fyrir hálfan mánuð á hreinu fæði en við erum ekki hættar, ónei...
Eftir mikið rölt í búðirnar í Smáralindinni ákváðum við að skreppa á kaffihús og fá okkur eitthvað gott. Energía varð fyrir valinu og þar fengum við nýpressaðan gulrótarsafa..þvílíkt og annað eins hnossgæti! Mælum með þessu, þetta er miklu betra svona hreint og nýpressað heldur en á flöskunum, það er ekki spurning.
Á leiðinni heim komum við við í Krónunni og keyptum þessa dásamlegu skyndirétti sem hægt er að fá núna frá Móður Náttúru. Ótrúlega gott ef dama er að flýta sér og hefur ekki mikinn tíma eftir búðarstússið. Kíkið endilega á uppskriftir frá þeim á : www.modirnattura.is
Í kvöld hittumst við svo nokkrar og drukkum te. Þetta fína flotta te sem fæst í Maður Lifandi og líka Bakarameistaranum á Smáratorgi og heitir Zhena´s Gypsy Tea og er lífrænt ræktað. Kemur í voða lekkerum og dömulegum baukum sem má svo kaupa áfyllingar í.
Nema hvað við tókum fram hunangið og nudduðum því vel og vandlega framan í okkur. Biðum góða stund og settum gúrkurnar á auglokin. Notuðum þær svo til að nudda saman við hunangið og biðum enn aðra góða stund. Þvoðum okkur svo úr köldu vatni a la Loren...og bárum svo á okkur möndlukremið góða frá Weleda í andlitið og handáburðinn góða frá þeim með appelsínulyktinni. Aumingja maðurinn minn, síðast þegar ég gerði þetta brá honum roslega þegar hann vaknaði við hliðina á mér og hélt að hann væri búinn að yngja upp..ætli hann haldi ekki að hann hafi villst inná fermingarbarnamót þegar hann vaknar í fyrramálið þessi elska!
Jæja elskulegu dömur. Höldum nú okkar striki svo við söfnum ekki spiki eða öðrum óþarfa að okkur.
Á morgun er gott að fá sér sítrónuvatn með ceyennepipar á fastandi maga. Síðan svona hálftíma síðar er gott að drekka eitt glas af himneskum Spirulinasafa. Þessi safi frá Voelkel, Gron Spirulina Drik er það besta sem ég hef smakkað á ævinni, í alvöru þið verðið bara að muna að hrista aðeins flöskuna. Ég er búin að eiga svona flösku í ísskápnum þennan hálfa mánuð og horfa á hana á hverjum degi,- og nú loksins má ég...
Svo fáið þið ykkur bara ávexti fram að hádegi. Passa bara að borða lítið í einu og hlusta vel á líkamann. Í hádeginu er upplagt að fá sér hafragraut með rúsínum, kanel og fræum eða lífræna AB- mjólk og ef til vill gott hrökkbrauð með hnetusmjöri og ferskum kryddjurtum.
Um miðjan daginn er gott að skjóta á sig tebolla og hrökkbrauði með tómötum og smátt söxuðum hvítlauk eða Tahinisósunni góðu. Eða bara gulrætur og kasjúhnetur, voða gott...
Á meðan þið eldið kvöldmatinn er gott að henda í eitt brauð , gerlaust og hveitilaust að sjálfsögðu:
Uppskrift að ger- og hveitilausu brauði:
350 gr. heilhveiti eða spelt
100 gr haframjöl
25gr sesamfræ
25gr hörfræ
5 tsk vínsteinslyftiduft
1 dl AB mjólk eða sojamjólk
3-4 dl vatn
Setjum þurrefnin í skál, blöndum mjólk og vatni saman við, hrært saman og sett í aflangt form og bakað við 180-200 gráður í 1 klst.
Við sendum inn fleiri brauðuppskriftir síðar en bendum á að margar góðar er líka að finna í Sollubókinni góðu.
Já og talandi um hana Sollu,- hvers vegna ekki að gera sér lífið létt og hafa gott Sollubuff í matinn í kvöld. Það er hægt að fá alls konar góð buff, hnetubuff er mitt uppáhald með stöppunni góðu úr sætu kartöflunum og svo ríf ég saman gulrætur, rófur og gúrkur og borða þetta svo allt saman með hummus sem fæst tilbúið eða ef ég hef tíma bý til geggjað góðgæti eftir uppskrift frá Móður náttúru sem er svona:
Kóríanderchutney: 1 tsk cuminfræ, 3 msk kókosflögur, 3 msk fræblanda, Til eru fræ frá Móður náttúru, 1 búnt ferskur kóríander, 1-2 ferskir chilipipar, fræhreinsaðir, 1,5 sm engiferrót, 2 msk vatn, 3 msk lífræn AB mjólk, 1 msk hlynsíróp 1/2 tsk hafsalt
Þurristið kókosflögur og cuminfræ á pönnu, passið vel að það brenni ekki. Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél og maukið vel saman og njótið svo vel. Bragðlaukarnir dansa af gleði!
Já þetta verður góður dagur á morgun, njótum hans vel og munum að sönn hamingja felst í því að vera lukkulegar með það sem við höfum.
Vöknum snemma og klæðum okkur í fallega liti því það undirstrikar okkar eðlislægu fegurð! Skoðum tunguna og brosum allan daginn...það er á við að fara undir hnífinn elskurnar mínar og miklu sársaukaminna.
Lovjú trúlí görls
a
Lífstíll | 8.5.2007 | 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Mínir tenglar
- Félag kvenna í atvinnurekstri Allar konur standa saman
- Nýsköpunarmiðstöð Íslands Endalaus spennandi námskeið fyrir okkur
- Líkami, hugur og Sál Frábær staður til að byggja sig upp.
- Rósa Traustadóttir Æðislega jógastöð á Selfossi
- Sumarhús í fyrsta flokki Einstaklega fallegur staður undir fjallinu Búrfelli.
- Flottasti ferðamannastaður á Íslandi Alltaf gott að koma að Geysi
- Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri og Sandvíkurhreppur My hometown:-)
- Húsið á Eyrarbakka og Byggðasafn Árnesinga Eitt skemmtilegasta safn á Íslandi
- Safnaklasi á Suðurlandi ÞAð er alltaf eitthvað að gerast á Suðurlandi
- Menningarráð Suðurlands Alltaf eitthvað gott starf í gangi
- Veitingastaður á Eyrarbakka Rómantískur staður og maturinn klikkar aldrei!
- Endalaus fróðleikur ein flottasta heimasíða sem ég hef séð!
- Listakonan Þórdís Frábærar myndir
- Fyrsti verslunarstaður Íslendinga Skemmtilegasta þorp á Íslandi
- Gallerí Gónhóll á Eyrarbakka Gisting, karkaðir, ráðstefnusalir og fleira
- Lista og tungumálamiðstöð fyrir börn og unglinga Spennandi námskeið fyrir alla krakka!
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 388828
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar