Dömuferð um Laugaveginn

Sælar elskurnar,

Við vinkonurnar vorum að koma úr virkilega skemmtilegri dömuferð með Ferðafélaginu. Gengum úr Landmannalaugum inní Þórsmörk með nokkrum lekkerum útúrdúrum uppá öll fjöll á leiðinni...klifum jökla og stukkum yfir sprungur..eins gott að vera búin að sóla hælaskóna og mannbroddana líka...

Frábærar fararstýrur, Helga og Elín stýrðu okkur fimlega framhjá öllum hættum og við vorum eins verndaðar eins og James, og þá er ég að tala um James Bond,-  væri með okkur! Nema þær elduðu líka þessar dýrindis krásir í okkur kvölds og morgna...þvílíkur lúxus! Ég er ekki viss um að við nennum oftar í virkilega erfiðar göngur með 20 kílóin á bakinu eftir þennan íburð, sko! Ég meina , við dressuðum okkur upp á kvöldin með lipstikk og allt nema silkikjólana og settumst eins og prinsessur við uppdekkað borð og dreyptum á frönskum ávaxtasöfum milli þrss sem rjúkandi réttir voru bornir fyrir okkur!

Hópurinn var líka svo skemmtilegur, dásamlegar dömur frá 20-80 ára gamlar samkvæmt almanakinu en allar ungar í anda og rjóðar í kinnum.

Síðasta kvöldið var svo herleg veisla í Þórsmörk þar sem við skemmtum okkur og þá komu þessar elskur...Helga og Elín með gjafir handa okkur....í ofanálag við allt hitt eins og það hefði nú ekki verið nóg! Undirrituð fékk bleika blúnduhanska, uppáháa sem hylja olnbogann ef illa fer með brúnkukremið nýja frá DOVE...gasalega lellerir og koma sér vel fyrir næsta dömuboð!

 Var svo heimavið fyrrihluta sunnudags, fór í afmæli á Lyngheiðina en síðan fórum við hjónin vestur á Snæfellsnes og gistum á Búðum með vinahjónum okkar að sunnan. Mikið indælisfólk! Við heldum svo vestur í Laxá í Dölum á mánudag þar sem við hittum okkar góða vina- og veiðimannahóp og drógum þar nokkra laxa á land. Áin var ósköp þreytuleg og þurr á manninn til að byrja með og gaf lítið en svo rigndi duglega á þriðjudag og þá fór heldur betur að færast fjör í leikinn.

Nú erum við að leggja lokahönd á að skipuleggja dömuferðina til Danmerkur þann 1.september. Við ætlum að fá til okkar nuddkonu og snyrtikonu á sunnudaginn, förum svo í Aarhus á mánudaginn og svo verðum við eitthvað að damast á Jótlandi hinu fagra...Það þarf ekki mikið að skipuleggja þegar konur eru annars vegar...þar sem dömur eru saman .- þar er alltaf gaman!

Fjölskyldan fór í Rauða Húsið áðan og svo í kvikmyndahús bæjarins að sjá hina nýju Astropíu...frábær og skemmtileg mynd ! Við hlógum mikið en kannski mest af því að fyrir framan okkur sat hópur af Nördum eins og hvað best er kynntir í myndinni og þeir skemmtu sér svo vel og hlógu svo ógurlega að við skildum miklu meira af myndinni en ella. Það er greinilega til svona fólk sem kann allar helstu brellurnar í RLP....góð skemmtun og gaman að fara á svona glaða mynd!

Við ættum kannski að reyna að koma okkur upp nokkrum svona leikhópum og æfa okkur í þessu RLP. Þetta er víst voða vinsælt þarna fyrir sunnan og eitthvað aðeins hefur þetta borist hér austur fyrir fjall og þá aðallega með Vestmannaeyingum sem hafa flust búferlum til borgarinnar og numið þar hin ymsustu fræði, hagnýt mjög! Ég frétti að minnsta kosti af hópi fólks sem tók þátt í svona ,,Murder she wrote" ævintýri og það var gasalega vel heppnað og skemmtilegt. Ég sæi fyrir mér að við dömurnar settum upp svoana RLP þar sem við værum frægar kvikmyndastjörnur og gætum þá virkilega notið okkar í dramatík og lekkerum dömudressum...Hvað með Breakfast at Tiffany´s! Það væri nú eitthvað fyrir okkur elskurnar, ha! Hvað segið þið um þetta?

Látum þetta duga í bili darlings

Lovjú

a


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband