Dagur 4

Elskulegu grönnu og lekkeru dömur,

Fyrirgefið hvað ég kem seint, stundum er svo margt að snúast að ekki gefst einu sinni tími til að tylla sínum íturvöxnu og lekkeru rasskinnum niður og blogg ögn!

Það byrjaði auðvitað með sítrónuvatni og ceyenne í morgun og svo heilum poka af gulrótum...ætli dömurnar verði ekki sólgylltar af öllum þessum gulrótum?

Svo í hádeginu fengum við kúfaðan disk af salati, prófið endilega sólþurrkaðan tómata, ólífur, tahinisósuna og alls konar nammi gott til að fá fjölbreytnina, já og rauðrófuteningar eru æðislega góðir með.

Ein af okkur úr Félagsskap Kátra og Krúttlegra kvenna hafði samband að sunnan og sagðist vera alveg hissa hvað þetta liði hratt! Eruði ekki sammála! Nú erum við að klára fyrri vikuna og þetta er búið áður en við vitum af! Önnur sagði að henni liði svo vel að hún ætlaði alveg að hætta í kaffi og rauðu kjöti eftir þetta og halda sig að mestu við Sollubókina og elda bara hollt. Hver vill eitra fyrir sér og sínum, sagði þessi góða kona og ég er alveg sammála.

Vinkona okkar að sunnan kom með gott ráð: Hún var að lesa bókina ,, Hreystin kemur innan frá"og þar er sagt að hreinsunin komi mest fram á tungunni og því ættum við að fylgjast vel með tungunni og tannbursta hana líka með sérbursta og þá verður hún voða bleik og fín..semsagt virkilega dömuleg.

Hún notar líka ristilhreinsimixtúru frá Kollu grasa sem heitir Vaðgelmir og er drukkið eins og te tvisvar á dag. Góð hugmynd. Eruð þið annars nokkuð stopp? Ef þið þurfið þá er líka á síðunni

www.madurlifandi.is

uppskrift að hreinsunum ýmis konar. Ég sló inn Epsomsalt í dálkinn þarna, leita og þá komu upp ýmsir möguleikar á hreinsun.

Hvað eigum við svo að hafa í kvöldmatinn?

Ég eldaði rosagott í gær úr Sollubók muniði...sæt kartöflumús og ofnbakað grænmeti með Tahinisósu

Ég er að hugsa um að búa til kjarngóða Minestronesúpu í kvöld og fara í ítalska gírinn..ímynda mér að ég sé mafíósahefðarfrú suður á Sikiley og í staðinn fyrir rauðvínið verð ég með hristann rauðrófusafa í háu glasi á meðan ég elda...og pikka í svartar ólífur!

Læt uppskriftina fylgja elskurnar

Gúddlokk

a

Minestrone a la Sicily

4 gulrótos

2 laukos

1 parikos græn

1 paprikos rauð

3 sellerístilkos

5 hvítlaukrifos, pressuð

2 msk kókosolía

1 tsk þurrkað rósmarin eða msk ferskt

sama af basilikos

sama af timian

sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk

10 stk tómatos, afhýddir og maukaðir í matvinnsluvél

1-2 msk grænmetiskraftos

1,5 lítri vatn

Skerið grænmetið eftir smekk.Hitið olíuna í potti og mýkið laukinn, bætið svo hinu grænmetinu í og steikið í nokkrar mínútur.

Tómötunum, kryddinu og vatninu bætt við og soðið í ca hálftíma.

Skreytið með restinni af svörtu ólífunum, ef þið eruð ekki búnar með þær allar, og nokkur smátt skornum laufum af basiliku

Þetta er nóg fyrir svo 6 manns eða borða restina bara á morgun!

a


Grænn kostur frá Sollu

Elskulegu dömur,

Það eru svo margar og góðar uppskriftir í Grænum Kosti Hagkaupa og Sollu. Ég eldaði í sæta kartöflustöppu og ofnbakað grænmeti, bjó til Tahini sósu með. Þvílíkt sælgæti. Mér heyrist þið flestar eiga þessa bók en endilega sendið línu ef þið eruð hugmyndasnauðar og finnst fæðið fábreytt.

Á morgun er nýr og skemmtilegur grænmetisdagur og nú fer þetta allt að léttast!!+

Góða nótt elskulegu draumadísir

a


Sviti, tár og prumpufýla

Æ, elskulegu dömur,

Þær sem eru að gera þetta í fyrsta sinn segjast finna fyrir mikilli andremmu, svitakófum og höfuðverk. Líkaminn er að reyna að losa sig við uppsafnaðan óþverra svo nú tekur á , gæti tekið daginn á morgun líka. Ykkur finnst maginn útbelgdur og þið eruð alltaf á klóinu, pissið eins og sjóarar en kannski minna hinum megin. Það kemur,- annars er það ógeðsdrykkurinn hennar Eyglóar, Epsom salt , olía og vatn...nánar um það síðar.

Strax eftir daginn á morgun líður ykkur miklu betur. Verið samt á varðbergi og passið að borða nógu mikið og fjölbreytt grænmeti, soðið, steikt, hrátt, ristað, bakað og gufað...fræ, hnetur, olíur, kókosmjólk, kókosflögur, alls konar græn te og grænmetissafa...og ef þið eruð alveg að gefast upp ,- huggið ykkur með harðfiskbita.

Læknirinn í hópnum segir að þetta sé mjög hollt og nú var að bætast einn hjúkrunarfræðingur í hópinn þannig að við erum vel kvenntar þegar við förum saman út á lífið og litlu númerin fjúka út í búðunum...

Allar fyrir eina, ein fyrir allar

Við getum allt sem við viljum!

knús

a


Dagur 3

Jæja kæru dömur,

Í dag er dásamlegur dagur og við finnum nú hvernig rennur af okkur lýsið...

Við fengum okkar ferskt og gott salat með tómötum, gúrku, papriku, aluk, ólífum, tómötum , hvítlauk og basil. Með þessum var svo drukkið eitt stórt glas af gulrótarsafa. Nammi, namm!

Með deginum í dag erum við komnar yfir erfiðasta hjallann. Þið finnið örugglega fyrir smáslappleika en það lagast allt með því að drekka mikið vatn og fá sér göngutúr í rokinu. Hugsið bara um markmiðin og hvað nú er stutt eftir...hálfnað verk þá hafið er!

Ef þið viljið þá má fá sér á morgun harðfisk og söl, smásmakk af og til næstu daga svo þið fáið meira prótín. Hver og ein verður að hlusta á líkamann sinn en ekki þó að vorkenna sér og gefast upp.

Nú er ég að fara á Olísstöðina að ná í allt fíneríið mitt frá Akri

Sendi uppskrift fyrir kvöldið á eftir

Veriði dömulegar í dag elskurnar

a

 


Við erum að springa hér...

eftir að hafa borðað réttinn hennar Sollu. Sá er saðsamur! Við vorum að hlæja að því að nú megum við borða eins og við mögulega getum og allt er bara hollt og fer beint í brennslu.

Nú erum við orðnar svo margar útum allt bara! Bryndís vinkona okkar í Árhúsum ætlar að vera með og hún er til í að vera stílisti ef við komum í verslunarferð til Danmerkur... Það er gott að safna hugmyndunum saman og velja svo einhver skemmtileg verðlaun fyrir þennan kraftmikla hóp. Félagsskapur kátra og krúttlegra kvenna heldur aðalfund í Danmörku..hvernig hljómar það?

Fundarefni:

Venjuleg aðalfundarstörf

Kosning stjórnar

Grænmeti verður borið fram milli fundaratriða...og eins á eftir!!

Grasrótarsafi í boði hússins.

Þetta fer allt í hugmyndabankann.

 

Annars heyrist mér að flestum líði vel. Sumar segjast vera svangar þrátt fyrir að þær hafi borðað meira en venjulega. Það er góðs viti, brennslan er komin í gang og fitan lekur af okkur.

Flestar eru duglegar að hreyfa sig og dúlla við sig sem er auðvitað nauðsynlegt.

Ef ykkur er kalt er gott að fá sér tesopa með smá ceyennepipar, bregst ekki.

 

Hér kemur svo ein góð uppskrift fyrir morgundaginn:

Gulrótarsúpan góða fyrir 6

6 meðalstórar gulrætur skornar í sneiðar

3 sellerístilkar, skornir í bita

1 laukur smátt skorinn

1 paprika rauð skorin í bita

1 msk kókosolía

1,5 lítri vatn

2 tsk grænmetiskraftur

dash af ceyennepipar

1 msk fersk basilika

1,5 tsk þurrkuð salvía

1 tsk karrý

Olían hituð í potti og laukurinn mýktur aðeins. Allt hitt hráefnið sett í pottinn ásamt helmingnum af vatninu og grænmetið soðið þar til það er meyrt. Afgangnum af vatninu bætt við og súpan bragðbætt með sjávarsalti og svörtum pipar eftir smekk, hituð upp að suðu og borin fram

Góða nótt elsku fallegu dömur, nú göngum við til hvílu með bros á vör og heyrumst í fyrramálið.

gulrótarknús

a


Fleiri uppskriftir!

Elskulegu dömur,

Halla vinkona okkar í Kello ætlar að bjóða okkur til sín í búðina huggulegt dömukvöld fyrir sunnan. Það verður spennandi, vonandi er hún með nóg í litlum númerum fyrir okkur!

vigtunÍris segir að við eigum að vigta okkur svona...ótrúlega uppörvandi!

En elskurnar mínar. Ef þið viljið frekar fara eftir uppskriftum en bara að tína til úr kæliskápnum, þá eru nokkrar uppskriftir hér. Þetta hjálpar okkur líka til að auka fjölbreytnina. Ég held að við verðum að skreppa útí búð á okkar prívatbíl og bæta við kryddúrvalið miðað við þessar uppskriftir allar! Það má nota kókosmjólk í hófi og kókosflögur eru dásamlegt trít...

http://www.madurlifandi.is/uppskriftir/graenmetisrettir/

http://cafesigrun.com/uppskriftir/?ufl=10

Gangi ykkur vel, heyrumst í kvöld elsku kókosbollurnar mínar

a

 


Uppskrift fyrir kvöldið.

Elskulegu dömur

Í kvöld skulum við hafa veislu að hætti Sollu í Grænum kosti Hagkaupa.

Þetta heitir Ratatouille og hér kemur uppskriftin:

2-3 msk kókosolía

2-3 stk laukar

2-3 hvítlauksrif

1 lárviðarlauf

1 stórt eggaldin

1 stk fennel

1 tsk sjávarsalt

11/2 tsk þurrkuð basilika eða 2 msk fersk

1 tsk majoram

1 tsk oregano

1/2 tsk timjan

1/2 tsk rósmarín

1 stk stór kúrbítur

2 stk stórar paprikur

1/8 tsk cayenne pipar

450 gr tómatar

2 msk tómatmauk

1/2 búnt steinselja

Afhýðið laukana og skerið í þunnar sneiðar. Pressið hvítlaukinn og skerið eggaldin í 2x2 cm bita. Skerið fennel í 1x1 cm bita og kúrbít í 2 cm þykkar sneiðar. Skerið paprikurnar í tvennt , fræhreinsið og skerið í 2x2cm bita. Skerið tómatana í tvennt og síðan hvorn helming í 4 báta. Fínsaxið steinseljuna. Hitið olíuna í potti og mýkið lauk, hvítlauk og lárviðarlauf í um 5 mín. Bætið eggaldini, fennel, salti og kryddi útí .Setjið lok á pottinn og látið mallaí um  10 mínútur. Þá setjið þið kúrbít, paprikur, cayennepipar, tómata og tómatmauk útí og sjóðið í aðrar 10 mín.Stráið saxaðri steinselju yfir réttinn og berið fram.

Nammi namm, heppnast alltaf!

En fyrir ykkur sem komið seint heim og eruð fallnar á tíma:

Taka frosið grænmeti úr frystinum og blanda ýmsum tegundum saman í pottinn sem bíður með kraumandi kókosolíunni. Nota svo hnetur, fræ og möndlur til bragðbætis og krydda af hjartans lyst.

Bera alltaf fallega fram og skreyta diskana jafnvel með steinseljugrein eða öðru góðgæti

Gangi ykkur vel elskurnar


Dagur 2

,,Þó að þér sýnist eitthvað erfitt, máttu samt ekki halda að enginn geti gert það. En allt það sem aðrir geta, skaltu halda að þú getir einnig."

Svo mælti Markús Árelíus elskulegu dömur mínar og við vitum að við getum allt sem við viljum...vandamálið er bara að stundum veit kona ekki hvað hún vill...en það vitum við núna!

Nú er kominn annar dagur og okkur farið að líða enn betur. Höfuðverkurinn farinn, orkan stígur og nú má búast við að okkur langi til að fara að taka til í skápunum, senda gömlu fötin í Rauða- Krossinn og rýma fyrir nýjum. Ein af okkur kom með góða hugmynd í morgunleikfiminni...væri ekki sniðugt að við færum bara allar saman til Amríku eftir þetta allt saman og versluðum okkur föt? Dollarinn er óhemjuhagstæður og Victoría Secret er með mjög lekkeran undirfatnað sem fæst bara þarna úti í henni Amríku..hugsum þetta og setjum í hugmyndabankann um lokahófið og verðlaunin.

Í morgun byrjaði ég auðvitað á hreinsun með sítrónute og ceyennepipar. Fór svo í  Rope Yoga í Lifandi húsi sem er náttúrulega dásamlegt og ég finn hvernig gamlar mittislínur koma í ljós , smátt og smátt, hægt en örugglega!

Morgunmaturinn var svo tómatabátar, gúrkur og aspas á stórum diski, stráði ristuðum fræjum yfir og drakk grænt te með.

Hádegismaturinn sem ég er að borða núna er fullt af fersku salati, iceberg, paprikur, tómatar, gúrkur, laukur, rauðrófuteningar og valhnetur. Kreisti yfir þetta smá sítrónu, ríf smá engiferrót og strái svo nokkrum piparkornum yfir.

Svo borða ég restina af indversku prinsessusúpunni í eftirmat. Þegar þið borðið niðursoðið grænmeti verðið þið að skola það svo þið fáið ekki sykur í ykkur elskurnar.

Munið svo að hafa með ykkur eitthvað nasl og stinga uppí ykkur bita ef þið finnið fyrir hungri...bannað að verða svöng !

Ég sendi ykkur uppskrift að veislumat fyrir kvöldið eftir fimm mínútur eða svo

grænmetisknús

a


Kvöldhuggelsi við kertaljós

Sælar aftur elskulegu dömur,

Ég vona að ykkur líði vel og séuð ekki svangar... Ein af okkur dömunum kom hingað í kvöld og við ræddum um næstu skref í þessum dásamlega hreinsunardansi okkar.

Okkur var svolítið kalt, það er oft hrollur í manni og hálfgerður höfuðverkur þegar eiturefnin eru að fara úr líkamanum..kannski er þetta líka kaffiskortur! Við suðum okkur vatn og settum ceyennepipar, sítrónu og engiferrót saman við og okkur hlýnaði svo vel af þessum góða drukk. Síðan skárum við niður nokkra tómata í báta og settum á bleikan disk á fæti, ásamt nokkrum gulrótum og stráðum ristuðum fræjum yfir. Voðalega ósköp gott og saðsamt fyrir svefninn.

Nú vorum við vinkonurnar komnar í gírinn þannig að við smurðum okkur andlit og háls með hunangi og settum svo gúrkusneiðar á augnlokin....ahahah hvað þetta er gott! Svo notuðum við gúrkurnar til þess að hreinsa af okkur hunangið og síðan....afþví við höfum heyrt að Sophia Loren sé svona falleg vegna þess að hún þvær sér kvölds og morgna með ísköldu vatni,- þá gerðum við auðvitað slíkt hið sama!

Okkur finnst við æðislegar og erum ekkert svoooo svangar!

Góð tillaga kom frá einni sem hringdi...ef við höfum lítinn tíma er gott að sjóða nóg af súpunni góðu á kvöldin og eiga með sér í vinnu að morgni. Líka gott að setja svona grænmeti og fræ eða hnetur Í poka til að nasla.

Við mælum með því að byrja morguninn eins, heitt vatn og cheyennepipar með sítrónu á fastandi maga og svo hrátt grænmeti fram að hádegi....

Meira í fyrramálið elskulegu dömur

MUNIÐ AÐ ÞAÐ ER BANNAÐ AÐ VERÐA SVÖNG!

Guð geymi ykkur og gefi ykkur góða nótt

a


Vorhreingerning fyrir dömur, dagur 1!

Elskulegu dömur,

 

Miðað við góð viðbrögð verðum við allar léttari innan skamms. Við þurfum að skipuleggja mjónuhóf, það er laveg ljóst. Fara allar saman út að borða og dressa okkur svo upp...eða eigum við að hafa þetta í öfugri röð kannski!!!

Það gengur vel hérna megin. Dagurinn hófst á hugleiðslu því ekki má andinn gleymast þegar holdið er tamið. Þetta er einföld og góð hugleiðsla en það virkar eitthvað svo vel að gefa sér smá slökun á morgnana og vakna vel í stað þess að stökkva fram í daginn. Það er gott að byrja á því að fara með fallegt vers eða bæn, loka svo augunum og anda djúpt, hægt og rólega 7 sinnum, inn um nefið og út um munninn. Hugsa svo rólega um daginn í dag. Hvernig ætla ég að hafa hann, hvað get ég gert til að gera þennan dag góðan fyrir mig og skilað frá mér góðum straumum til meðsystkina minna sem ég hitti í dag.

Í kvöld áður en við sofnum gerum við eins, förum yfir daginn. Hvernig var ég í dag?Hélt ég áætlun?  Líkar mér vel við mig sem persónu? Gerði ég eitthvað góðverk? Hvað get ég gert betur á morgun? Hvernig gengur mér að þroska mig og bæta. Þakka fyrir minnst 5 jákvæð atriði í lífinu, aldrei það sama dag eftir dag. Sjá allt þetta litla, fugl sem söng, maður sem brosti, ég get séð morguninn vakna...

Fara svo með stutta bæn eða vers og anda aftur , djúpt ofan í magann...galtóman greyið,- og nú 11 sinnum ef þið verðið ekki sofnaðar áður.

En snúum okkur þá að því sem liggur fyrir hjá okkur næstu tvær vikur.

Morguninn hófst á því að drekka soðið vatn með sítrónu og Ceyenne pipar.

Um 10 leytið borðaði ég nokkra tómata og drakk mikið vatn

Hádegismaturinn var svo niðursneytt grænmeti, sætar kartöflur, púrrulaukur, blómkál, icebergsalat, allt svona sem til er í ískápnum matur. Í fordrykk fékk ég mér Biotta gulrótarsafa hristan með klökum og skreyttan með sítrónusneið og kórianderlaufi

Það er best að steikja uppúr kókosolíu frá Sollu grænu sem fæst í Bónus. Ég blanda svo við þetta sinnepi, hnetusmjöri, hvítlauk og engifer og kanil. Passa að nota sem mest hrein krydd sem ekki hefur verið blandað neinum e- efnum í. Smá sítrónusafi og vatn og malla svo smástund. Ekkert salt og ekkert meira krydd þarf í þennan rétt.

Gott að skola icebergsalat og setja á disk með smá ólífum eða ólífuolíu. Setja svo steikta grænmetið yfir og strá fræblöndu ofan á . Skreyta með rífnum rauðrófum eða ferskum kryddjurtum. Þetta verður að vera fallegt og dömulegt svo okkur þyki þetta skemmtilegt.

Ég tók Udo´s 3.6.9 olíuna með þessu, tvær msk en Hallgrímur læknir segir að það sé betra að taka hana á kvöldin því þá sé lifrin í næði að hreinsa yfir nóttina. Þannig að á morgun ætla ég að prófa það.

Tyggið svo hægt og verið lengi að borða ef þið mögulega getið.

Um eittleytið fékk ég mér svo grænt te. og núna er ég búin að spæna í mig 500 gr. af gulrótum milli mála og taka inn Chlorellu sem heilsuráðgjafinn ráðlagði til að hreinsa út gamlan kú......ó en ódömulegt en þið verðið samt að vita þetta. Chlorellan fæst í Heilsuhúsinu og er afeitrandi bláþörungur sem skolar út gömlum, uppsöfnuðum ....þið vitið!

Í kvöld ætla ég svo að elda dásamlega grænmetissúpu. Mjög einfalt. Þið notið bara frosið grænmeti , fínt sem er til í bónus. Blanda af brokkólí, blómkáli og gulrótum, smá af papriku, lauk, hvítlauk, engifer, rauðkáli, sellerí og sellerírót...hvað sem ykkur dettur í hug. Smá Chilipipar er dásamlegur og prófið að nota lífrænt ræktaða niðursoðna tómat með basil og hvítlauk ef þið viljið ítalska línu.

Ég ætla hins vegar að vera indversk prinsessa í kvöld og krydda með Garam Masala, Cummin, karrí og kúmeni. Það er svo gott að bragðbæta með grænmetiskrafti , lífrænum og glutenfríum auðvitað..

Ef þið þurfið að salta notið þá endilega hreint sjávarsalt og sem minnst unnið.

Þessi súpa er dásamleg og virkilega dömulegt að strá yfir hana nokkrum huggulegum kókosflögum.

Í kvöld er svo gott fyrir okkur að dekra við okkur. Láta renna í ilmolíubað, kveikja á kertun, slökunartónlistin á  og nudda svo húðina uppúr hunangi til dæmis. Fáum okkur eitthvað uppbyggjandi að lesa í baðinu, eitthvað sem kveikir hjá okkur fallegar hugsanir og löngum til að bæta okkur og allan heiminn með!

BARA EIN GRRUNDVALLARREGLA: EKKI VERÐA SVÖNG!

Ef þið finnið til hungurs, ekki fara að sofa svangar. Skerum niður ferskt og fallegt grænmeti og borðum okkur til ánægju og yndisauka, drekkum grænmetissafa, gott grænt te eða soðið vatn með dash af sítrónu.

Gangi ykkur vel elskulegu dömur

a

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband