Gyðjur á Þingvöllum

Dömuboð 2007 Hildur 010Hver einasta damista er Gyðja í hjarta sínu. Formæður okkar Frigg og Freyja voru áhrifamiklar dömur á sínum tíma en þær voru svo uppteknar við sín dömulegu störf , þ.e. að stjórna veröldinni... að þær höfðu ekki tíma til að skrifa söguna frekar en aðrar dömur svo að karlpeningurinn sá um það og gerði þar af leiðandi hlut kvenna minni en hann var í raun og veru.

Það er ekki allt satt sem stendur í bókunum þó gerðar séu af kálfskinni og ritaðar kálfsblóði!Dömuboð 2007 Hildur 034Nú er von að sannleikurinn komi í ljós! Hinn skörulegi þjóðfræðingur Ingunn Ásdísardóttir ætlar að segja okkur allt um hlut formæðra okkar, Freyju og Friggjar, í fyrirlestri á Þingvöllum þann 14.júní nk. Ferðin hefst við fræðslumiðstöðina við Hakið kl.20.00.

Ég held að við bara verðum að mæta elskulegu dömur! Ha! Annað er bara ekki sæmandi okkur sem sönnum dömum og Gyðjum!Dömuboð 2007 Hildur 007Sem við erum og höfum alltaf verið!

Rifjum nú aðeins upp það sem ritað hefur verið um þessar dásamlegu Gyðjur:

Freyja merkir frú. Hún er dásamleg gyðja ástar og frjósemi. Hún bjó ásamt bróður sínum Frey sem er frjósemisguð og föður sínum Nirði sjávarguðinum sjálfum,  í Ásgarði en þangað  voru  þau send sem gíslar og vináttuvottur eftir stríð tveggja ætta goða. Freyja var valdamikil gyðja og dýrkuð af konum jafnt og af konungum og hetjum. Hún jók frjósemd lands og sjávar og veitti hjálp í hjónabandi og við fæðingar. Þar sem hún er ástargyðja er hún sögð hafa átt marga ástmenn bæði goð og konunga sem hún studdi svo í valdatíð þeirra. Enda var nú alltaf sagt að að baki hvers karlmanns væri kona sem stjórnaði öllu í raun og veru þó þær hefðu ekki krafta í kögglum þá hlaut að vera einhver heili á bak við þetta allt saman!

Bóndi hennar var Óttar eða Óður var nú ósköp veiklyndur og grét af söknuði þegar hann þurfti að fara að heiman en Freyja kunni því vel því tárin voru úr skíragulli og komu sér vel í blingsafnið hennar elskunnar! Þau áttu dæturnar Hnoss og Gersemi.  Bær Freyju hét Fólkvangur og þangað voru allir velkomnir.

Freyja átti auðvitað eins og allar sannar dömur lekkeran farkost sem hæfði henni. Það var vagn sem tveir kettir drógu enda hafa konur og kettir alltaf átt margt sameiginlegt eins og tíguleika, afbragðsgáfur og útsjónarsemi...níu líf, hvað!  Hún átti einnig valsham sem var þeim eiginleikum búinn að er hún klæddist honum breyttist hún í fugl og gat flogið hvert sem hún vildi. Það er ekkert sem stoppar sanna dömu!

 Eins og aðrar kynsystur vorar var Freyja mikið fyrir blingið og átti þar af leiðandi mikið safn gulla og gersema en frægast þeirra er Brísingamenið hennar sem hún sá eitt sinn hjá dvergum af Brísingaætt en þeir voru ótrúlegir hagleiksmenn og höfðu smíðað dýrgripinn. Hún falaðist eftir því og þeir sögðu að hún mætti fá það ef hún eyddi einni nótt með hverjum þeirra og hún var auðvitað greiðvikin dama og samþykkti það enda bóndinn aldrei heima...a lady has to do what a lady has to do!!!!

Þegar Óðinn frétti af þessu varð hann öfundsjúkur og skipaði hann Loka að ræna meninu af Freyju. Loki breytti sér þá fló og á meðan Freyja svaf beit hann hana í kinnina svo hún bylti sér og hann rændi af henni skartinu. Þegar Freyja uppgvötaði að menið var horfið vissi hún strax að Óðinn hefði tekið það og heimtaði að hann skilaði því. Óðinn gerði það en fyrst þurfti Freyja að koma af stað vígum milli tveggja konunga en víg þessi þróuðust yfir í eina af helstu hetjusögnum víkingatímans.

Já, það verður gaman að heyra útgáfu Ingunnar sem mun örugglega vera Freyju í hag.Dömuboð 2007 Hildur 009

Þá er það hún Frigg Fjörgynsdóttir vinkona okkar. Ekki er hún síðri elskulega daman sú! Hún er höfuðgyðja í norrænni goðafræði og var eiginkona Óðins.  Nafn hennar merkir ást eða hin elskaða. Frigg veit allt, er forspá og sér fyrir öll örlög , þá þurfti nú ekki Tarotspilin. Hún er verndari hjúskapar, fjölskyldu og heimilis. Einkennisgripir hennar eru lyklar, mistilteinn, valshamur og rokkurinn sem hún notar til að spinna skýin. Frigg býr að Fensölum  í Ásgarði þar sem hún, eins og aðrar dömur hefur nokkrar stúlkur sér til aðstoðar við nokkur þau hin erfiðari verk sem vinna þarf heima og heiman.

Baldur sonur Friggjar var bjartastur Ása og honum unni hún mest sinna barna sem hún elskaði þó öll af heilum hug.  En þar sem Frigg sá lengra en en aðrir, vissi hún að Baldur var feigur. Til að reyna að vernda hann fékk hún allar skapaðar verur, menn, dýr og jurtir, og alla skapaða hluti úr málmi, tré og steini til að sverja að gera honum aldrei mein. Eftir það gátu goðin skemmt sér við að kasta hlutum að Baldri vitandi það að honum yrði ekki meint að.

En ódóið hann Loki var alltaf til alls ills vís og hann fann út að mistilteinninn hafði ekki svarið Frigg þennan eið þar sem  hún hafði álitið hann of ungan til að geta valdið skaða og þannig náði hann með klækjum að drepa hann Baldur.

En Frigg gafst ekki upp og freistaði þess að ná syni sínum úr Hel. Þá var henni tjáð að hann fengi að fara ef allir hlutir, bæði lifandi og dauðir fengjust til að gráta hann. Frigg sendi þá erindreka um allan heim og bað alla að sýna ást sína á Baldri og gráta hann. Allir urðu við þeirri bón, bæði menn, dýr, steinar og málmar, því allir elskuðu Baldur. En að lokum komu sendiboðarnir að gamalli konu sem neitaði að gráta Baldur því hún hefði aldrei elskað hann. Þetta var auðvitað hann Loki kallinn í dulargervi og Baldur blessaður mátti því dúsa áfram í Helju.Dömuboð 2007 Hildur 003

Í annarri sögu af Frigg sjást dömulegir eiginleikar hennar vel, afgerandi sjálfstæði og viska. Tveir ættbálkar áttu í erjum og hélt Frigg með öðrum ættbálknum en Óðinn með hinum. Þau rifust heiftarlega um þetta skötuhjúin en að lokum lofaði Óðinn því að hann myndi láta það lið vinna sem hann sæi fyrst er hann vaknaði næsta morgun. Hann hafði auðvitað rangt við því hann vissi að rúmið hans lá þannig að hann sæi fyrst mennina í sínu liði.

Frigg sá auðvitað við klækjum bónda síns og meðan hann svaf sagði hún konunum í sínu liði að greiða hár sitt yfir andlitið svo að þær litu út eins og skeggjaðir karlar. Svo snéri hún rúminu þannig að þær yrðu það fyrsta sem Óðinn sæi er hann vaknaði. Hann var mjög hissa þegar hann vaknaði og spurði hverjir þessir síðskeggjuðu menn væru. En eins og sannur herramaður hélt hann loforð sitt og þessi ákvörðun færði ættbálk þeirra sigur . Þannig sá Óðinn að lokum að auðvitað átti hann að láta konuna sína ráða og viðurkenndi að Frigg hafði valið betra liðið.

Dömuboð 2006 frá Erlu Soffíu 026

Já elskulegu gyðjurnar mínar. Skundum á Þingvöll og treystum vor heit þann 14.júní!

Hlakka til að sjá ykkur

Gyðjuknús

a

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband