Láttu ljós þitt skína í lífinu með því að lýsa öðrum

Sælar elskulegu dömur,

 

Afskaplega ólekkert veður þessa dagana. Það er alltof mikill blástur fyrir minn smekk. Ekki nærri því eins auðvelt að vera lekker og dömuleg þegar hárið fýkur út og suður og sandkornin fylla augun! Eina ráðið er þá að kaupa sér lekkera goltreyju í björtum litum og bandaskó í stíl, varalita sig feitt og setja upp gulu sólgleraugun eða bjartsýnisverðlaunin eins og systir mín segir. Það verður bara  allt sólgult í kringum mann  með þessi gleraugu, alveg yndislegt og fallegt eins og þegar sólin skín.

Við fórum í dömuferð 30 saman í gær. Alveg yndislegt og virkilega skemmtilegt. Við lögðum af stað um 11 fyrir hádegi og ókum austur í Hrunamannahrepp þar sem Sigurður bóndi tók á móti okkur og sýndi okkur ættaróðalið Hrepphóla. Við skoðuðum líka kirkjuna þeirra, einstaklega falleg lítil og lekker sveitakirkja. Algjör draumur þessar gömlu íslensku sveitakirkjur! Við fórum síðan að Flúðum og heimsóttum tómatabóndana á Melum. Stórkostleg og heilnæm ræktun sem á sér stað þarna. Fengum að smakka alls konar hollustutómata og svo fengum við bleikt og afar lekkert kampavín með. Þessu næst fórum við svo að skoða Silfurber og fengum að smakka nýtínd jarðarber og enduðum svo á að skoða Flúðasveppi og smakka beint af beðinu. Alveg frábært og mjög skemmtilegt.

Við fórum svo og vígðum nýtt og glæsilegt kaffihús á Flúðum og skoðuðum gistiheimili í sama húsi. Þar fengum við kaffi og meðí! Ég verð nú að segja að þetta er virkilega lekkert og dömulegt kaffihús, blúndurúmföt og gasalega hugguleg herbergi. Ég á nú örugglega eftir að skreppa með minn í rómóferð þarna uppeftir einhverja helgina þegar vel liggur á okkur.

Eftir allt þetta fórum við svo í Hruna og heimsóttum prestfrúna þar. Hún er lærð leirlistakona og er með gallerí við túnfótinn á prestsetrinu. Afskalega flott hjá henni en frekar fáir hlutir til. Selst örugglega allt strax frá henni. Við skoðuðum kirkjuna í Hruna líka, hún er voða sæt en Hrepphólakirkjan er nú enn meira krútt.

Eftir allt þetta lá svo leiðin að Geysi í Haukadal. Þar var heldur betur tekið vel á móti okkur eins og venjulega. Við fengum dúmjúkar lambalundir og rauðvínstár og svo kaffi og grand á eftir og kókoskúlur. Gasalega gott og huggulegt, ummm!

Svo var haldið heim á leið, sungið alla leiðina úr söngbók Dísu og það voru glaðar og lekkerar dísir sem komu heim að kvöldi eftir einstaklega vel heppnaðan dag!

GrinHvað haldiði svo! Marianne er orðin amma! Hún hringdi og lét mig vita að það væri komin yndisleg lítil dama...svo lík ömmunni sinni. Nú verðum við dömurnar að hjálpast að og kenna Marianne aðeins með svona helstu dömuömmuuppeldisaðferðirnar því hún hefur bara átt stráka fram að þessu! Við ætlum að fara og kaupa kjóla og bleik dress á morgun...ó svo spennandi!!

Jæja elskulegu dömur, eitt svona í lokin ...munið frasana...frekar dey ég en að vera ósmart!!!

ömmuknús

a


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband