Dömukvöldið á Geysi heppnaðist fádæma vel

Elskulegu dömur,

Við vorum um 160 falleg fljóð á óræðum aldri sem söfnuðumst saman á Hótel Geysi um helgina undir styrkri stjórn Ingu Hafsteins og Heiðars snyrtis. Eins og við mátti búast var þetta einstaklega skemmtilegt og gott kvöld, maturinn var dúndurdömulegur og lekker. Fyrst var fordrykkur, og þegar við settumst við dásamlega skreytt borðin var borin fram hörpuskel sem bráðnaði í munninum og gældi við bragðlaukana undir ljúfri rödd hins föngulega Gunnars Ólasonar úr Skímóbandinu,- sem auðvitað kemur frá Selfossi eins og fleira góðgæti!

Nú svo fengum við gasalega lekker kjúklingaspjót og þar á eftir mangókrap til að létta á laukunum og undirbúa þá undir einhverja bestu kálfalund sem ég hef smakkað en´hún var borin fram í góðum félagsskap,- jú eðlilega í svona dömuselskap...snyrtileg og gómsæt andabrjóst sem framkölluðu ljúfar sælkerastunur úr öllum þeim dömubrjóstum sem þarna voru samankomin, orginal sem og hin með beina innspýtingu!!

Hinrik Ólafsson söng fyrir okkur á meðan og hann er voða sætur þessi elska en stóri bróðir hefur þó vinninginn, bæði með sönginn og sexapílinn sem við sunnleskur kvennaljómi erum jú sérfræðingar við að vega og meta.

Það fór ekki hjá því að efri varir okkar titruðu létt þegar himnesk súkkulaðifullnægja...jú sú var ekki feikuð,- borin fram í djúpum diskum og hinir erkihuggulegu matreiðslumenn svifu um salinn með heita súkkulaðisósu og helltu yfir okkur þeim himneska vökva sem hver og ein einasta kona stenst aldrei, mun ekki, vill ekki og þarf ekki,- því súkkulaði er jú vísindalega sannað að sé hollt fyrir allar konur, hvort sem það fer utan á okkur eða innan í. Hvílikt og annað eins góðgæti hef ég bara aldrei smakkað!

Við fengum svo einstaklega flottar og elegant tískusýningar var aðaltískuvöruverslunum Íslands sem auðvitað eru staðsettar á Selfossi,- Mekka tískunnar á Íslandi. ÞAð voru Central tískuhús og Lindin sem sýndu föt á fögrum konum á öllum aldri. ÞAð var mál kvenna að þetta hefði jafnast á við að vera í Eden á fimmtudagskvöldum í DEN TID! Muniði!!! OG auðvitað var Heiðar flottastur..kynnti þarna fegurðardrottningar og fleiri tískuljónynjur, hverja annarri dásamlegri en okkar var samt flottust!!!Þið vitið hverja ég meina!!!

Við fengum meira að segja gjafir frá Guerlain!- Þvílíkt flottar töskur með rándýrum kremum sem við mættum auðvitað allar með í Dömubrunch morguninn eftir, allar orðnar svo lekkerar í framan með húðljóma og gleðibros á vör.

 Þetta var svo ótrúlega frábært og skemmtilegt kvöld og við hlökkum allar til að koma á næsta ári aftur, Sko þar mun engin sönn dama láta sig vanta. Vonandi verður þá búið að stækka hótelið á Geysi, þetta flottasta hótel á Stór - Suðurlandssvæðinu.

En við veltum okkur aðeins uppúr því...hvernig er hægt að halda svona glæsikvöld og hafa það svona gasalega billegt,???? 4000 krónur fyrir allt þetta og 8.500 með gistingu , þegar ein nótt á sæmilegu hóteli fyrir sunnan kostar 11.000 minnst!!!Og ekki einu sinni með morgunverði hvað þá heldur 64 rétta hlaðborði eins og við fengum þarna nývaknaðar og sólskinssælar.

Bestu þakkir til ykkar allra á Geysi fyrir frábæra helgi...

Við vorum nefnilega alla helgina stöllurnar. Mættum á föstudegi í bústaðinn, bjuggum okkur til létt og hollt kjúklingasalat og fórum svo í náttfötin, settumst allar í hrúgu og möluðum látlaust langt fram á nótt. Það er svo gaman að fara svona saman vinkonurnar og eiga saman dömustundir. Svo var sofið út og undir hádegi hellt á könnuna og við fengum okkur auðvitað morgunmatinn í rúminu, heitt kaffi og súkkulaði, varla hægt að hugsa sér það betra! Það veit hver dama hvað súkkulaði er hollt. Kl. 14.00 stundvíslega rak Ásta orkubolti okkur á fætur og við fórum að Gullfossi og skoðuðum hann og minntumst systur okkar, Sigríðar í Brattholti sem bjargaði Gullfossi frá glötun á sínum tíma og hver einasta kona ber í sér brot af þessari kjarnakonu sem við verðum að virkja.... en annað má bíða í bili.

Við fórum svo inní Haukadalsskóg og brenndum alveg helling af kaloríum í undurfögrum skóginum, upp og niður brekkur, inní lundina, strukum rauðgreni og sitkagreni undir kinn og hlustuðum á fuglana syngja sín fegurstu vorljóð. Þarna eru alls konar skemmtilegar gönguleiðir, við valkyrjurnar vorum innblásnar kraftinum frá Gullfossi og völdum lengstu leiðina, jú,jú, þá rauðu...það var nú ekkert öðruvísi.

Rjóðar í kinnum skunduðum við svo í kjarngott kaffi á Hótel Geysi og síðan til Drífu í súkkulaðiköku og rauðar rósir....frá Sigga mínum hann er svo yndislegur alltaf. ÞAr voru ungar fagrar konur að máta kjóla fyrir kvöldið og við vorum auðvitað fengnar í ráðgjöf varðandi lekkerasta lúkkið....og þó voru þarna nokkrar feitlagnar, miðaldra húsmæður úr Hafnarfirði á ferð, en engu að síður sannkallaðar dömur og með auga, já auga dömu svíkur aldregi!

Þarna bættust tvær í hópinn og við fórum nú allar í bústaðinn og fengum okkur ískaldan drykk og byrjuðum að lakka, snyrta, plokka og reyta, jafnvel raka smá aukabrúska sem brotist höfðu út á miður óæskilegum stöðum...A lady has to do what a lady has to do....

Ó mæ God...hvað þetta er skemmtilegt að vera svona saman stelpurnar! Þó við séum kannski farnar að eldast að utan, þá erum við alltaf jafn ungar og fallegar að innan! Það breytist ekki á meðan við lifum. Eftir góða stund var það mál kvenna að Sif væri mesti snyrtifræðingurinn og algjör sérfræðingur í augnskuggasétteringum en Anna tók að sér áð vera Lafði Lokkaprúð og tókst það svo vel að henni var boðið á samning hjá virtustu hárSTOFUNNI á Selfossi! Nú er bara spurning hvenær hún snýr sér alfarið að hárinu! Sif aftur á móti hefur í hyggju að skipuleggja helgarferð í Hafnarfjörðinn og kenna okkur að kaupa réttu burstana og skuggana...að ekki sé talað um Boots töskuna sem hún var með! Herðatré og gegnsæir vasar, Það er toppurinn!

Munið að þið erum einstaklega yndislegar allar. Virkjum í okkur Brattholtsgenið og biðjum börnin að fara út og leika sér í þokunni!

Takk fyrir helgina og Gyðjan gefi ykkur góða viku

Lady in Red


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband